149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

styrkir til kaupa á hjálpartækjum.

351. mál
[16:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Við þinglega meðferð frumvarps til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar frá 2008 og lyfjalögum frá 1994, með síðari breytingum, sem varð að lögum nr. 45/2012, var reglum um greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði breytt. Beindi meiri hluti velferðarnefndar því til ráðherra að reglugerð um styrki vegna hjálpartækja yrði endurskoðuð með það að markmiði að hækka styrki vegna hjálpartækja þar sem ákveðnir hópar sjúkratryggðra sem þurfa á lyfjum að halda, eins og t.d. sykursjúkir, þurfa auk þess hjálpartæki og hafa af því töluverðan aukakostnað. Auk insúlíns sem var gjaldfrjálst fyrir lagabreytinguna en er það ekki lengur þurfa sykursjúkir að kaupa strimla, blóðhnífa og nálar og þeir sem nota insúlínpenna þurfa auk þess að kaupa slöngusett og forðahylki. Sykursjúk börn þurfa oft og tíðum dælubúnað og ýmislegt sem honum fylgir.

Sjúklingar geta sótt um styrk vegna kostnaðar samkvæmt reglugerð frá 2008 um styrki vegna hjálpartækja en sá árlegi kostnaður sem sjúklingurinn sjálfur ber fer oft yfir hámarksgreiðsluþátttöku Sjúkratrygginga til einstaklings í lyfjakostnaði á 12 mánaða tímabil.

Kostnaður vegna sykursjúks barns sem er t.d. sex ára, þá er búið að draga kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga vegna insúlíns frá, getur numið allt að 200.000 kr. árlega. Við það bætist t.d. vinnutap annars foreldris, oftast móður. Annað foreldri sykursjúks barns þarf oftast að minnka við sig vinnu. Sykursjúkir og aðrir sem þörf hafa á hjálpartækjum vegna lyfjatökunnar bera því hærri árlegan kostnað vegna sjúkdóms síns en þeir sem einungis taka lyf. Auk þessa eru algengustu hjálpartækin fyrir sjúklinga með sykursýki sérsmíðuð innlegg, tilbúnir bæklunarskór og framleistar og ökklaspelkur. Mikill munur er á hjálpartækjaúrræðum út frá stoðtækjafræði milli Norðurlanda og Íslands. Notandi í Svíþjóð þarf t.d. ekki að greiða fyrir hjálpartæki sitt þegar sár á fæti notanda hefur verið staðfest læknisfræðilega og þá eru hjálpartækin hlutur af sárameðferðinni og stoðtækjafræðingurinn er þá hluti af fagteymi spítalans.

Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hafa reglurnar verið endurskoðaðar eins og velferðarnefnd lagði til með það að markmiði að lækka kostnað þessa hóps? Ef svo er, hversu mikið hefur kostnaðurinn lækkað?