150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[14:45]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Bahamaeyjar, Botsvana, Kambódía, Gana, Mongólía, Panama, Pakistan, Sýrland, Trínidad og Tóbagó, Jemen og Zimbabwe eru þau lönd sem eru á gráa lista FATF auk Íslands. Þetta eru allt lönd sem hafa unnið sér það inn að vera á þessum gráa lista með einum eða öðrum hætti og yfirleitt með nákvæmlega sama hætti og Ísland gerði með því að uppfylla ekki þau 48 skilyrði FATF frá 2012 sem gerð eru til að vera ekki á þessum gráa lista. Við erum það sem kallað er ósamvinnuþýtt land. Er það endanlegur dómur? Er það eitthvað sem við getum komið til baka frá? Já, algjörlega og mörg lönd hafa gert það. En við skulum taka þetta alvarlega vegna þess að þetta snýst kannski ekki svo mikið um að vera eða vera ekki á gráa listanum, þó svo að það sé mikil skömm í sjálfu sér, heldur snýst þetta um miklu stærri hluti sem þessi 48 skilyrði eru búin til til að reyna að koma í veg fyrir. Ég ætla að reifa það aðeins hér á eftir.

Til þess að fólk átti sig á því hvað við erum að tala um þegar við erum að tala um skráningu raunverulegra eigenda þá eru þetta í raun fjögur skref. Það þarf í fyrsta lagi að auðkenna fyrirtæki, þ.e. að vita ákveðna hluti um það, kennitölu eða skráningarnúmer, heimilisfang, skattalega staðfestu, stjórnarmenn og þess háttar.

Atriði tvö er að finna út hverjir eru réttmætir eigendur og þá eru það ekki endilega þeir sem að nafninu til eru skráðir fyrir hlutabréfum í fyrirtækinu heldur einnig þeir sem verða aðnjótandi þeirra gæða sem koma til eigenda að lokum. Það eru fjölmörg dæmi um að einstaklingar séu útnefndir sem stjórnendur eða eigendur fyrirtækja meðan einhverjir aðrir eru þar að baki, t.d. með afturvirka eignaskiptasamninga eða annað sem hægt er að gangsetja til að yfirfæra eignir, arð eða annað þegar svo býr undir. Jafnframt vitum við að í dag er hlutabréfaskráin á Íslandi eingöngu rétt einn dag á ári. Alla aðra daga er ekki víst að þeir sem eru skráðir hlutabréfaeigendur séu það raunverulega. Það að þessi atriði séu uppfærð í rauntíma er ákveðið skilyrði þess að skráin sé áreiðanleg. Að hafa hana eingöngu rétta með góðu móti einu sinni á ári þýðir að alla hina daga ársins geta eignirnar verið að flæða fram og til baka án þess að það sé raunverulega vitað hverjir séu réttir eigendur.

Þriðja atriðið er að það þarf að reikna gagnvirka eignarhaldið. Þá erum við að tala um að ef Jón á hlut í fyrirtæki A sem á hlut í fyrirtæki B en hann á líka sjálfur með beinum hætti eignarhlut í fyrirtæki B þá þarf að reikna það saman eftir ákveðnum hlutdeildarreglum. Þetta er stundum býsna flókið, ekki síst þegar farið er yfir landamæri eins og mjög oft er gert til að fela beinlínis slóðir eignarhalds. Þetta verður mjög erfitt þegar fólk er að fara með eignarhald gegnum skattaskjól, jafnvel í gegnum önnur ríki sem eru ekki skattaskjól en hafa ekki fullnægjandi upplýsingaveitu til hérlendra yfirvalda.

Fjórða atriðið er það sem við göngum öll í gegnum þegar við erum að opna bankareikning, þegar við erum að biðja um lán, sem er það sem kallað er á ensku AML & KYC, eða Anti-Money Laundering og Know Your Customer. Þetta eru ákveðin sett af skilyrðum til að fjármálafyrirtæki og skattyfirvöld og aðrir geti reynt að koma í veg fyrir peningaþvætti með því að vita við hvern þau eru að tala, hver endanlegur viðskiptaaðili er. Þetta er ekki flókið. Þetta er eitthvað sem við getum gert vel. Þetta frumvarp kemur til með að gera kröfu á fyrirtæki um að þau skrái endanlega eigendur ögn fyrr þannig að hægt sé að uppfylla annað og þar með þriðja skilyrðið þannig að loks sé hægt að framkvæma réttmætt eftirlit með endanlegum eigendum fyrirtækja á þann hátt sem krafa er gerð um.

Maður veltir fyrir sér af hverju við erum ekki búin að þessu. Þetta er hluti af skilyrðum FATF frá 2012. Það eru eldri skilyrði frá 1990 um peningaþvætti frá FATF, sem var stofnað 1989 ef mig misminnir ekki. Af hverju höfum við ekki á undangengnum 29 árum getað komið fyrir góðum reglum um gagnsætt og skýrt eignarhald og endanlegt eignarhald á fyrirtækjum hér á landi? Ég kann ekki skýr svör við því en þetta er, að ég tel, liður í því sem ég hef áður kallað viðvarandi og kerfislæga linkind gagnvart spillingu hér á Íslandi. Það hefur birst okkur ítrekað undanfarin ár. Hægt er að tala heilmikið um að laga þessa atriði en það er ekki nóg að tala. Það er ekki nóg að vera með viljayfirlýsingu eða senda sterk skilaboð til FATF, við þurfum virkilega að hafa þetta á hreinu.

Þá kem ég kannski að því sem skiptir máli í þessu vegna þess að það er í raun ekki stóra málið að vera eða vera ekki á gráum lista FATF. Stóra málið er að peningaþvætti á heimsvísu er risavaxið fyrirbæri. Við erum að tala um, samkvæmt mati frá Tax Justice Network, peningaþvætti upp á um 13.000 milljarða dollara á ári. Það er hóflega matið frá nokkuð íhaldssömum mönnum. Við erum að tala um 1.200 milljarða dollara á ári í ólögmætum fjármagnsflutningum frá svokölluðum þróunarlöndum, bara frá þeim, bara ólögmætu fjármagnsflutningarnir. Þá erum við ekki að tala um viðskiptajöfnuð. Viðskiptajöfnuðurinn er tekinn til hliðar þó svo að það megi kannski finna eitthvað athugavert við hann.

Hvernig gerist þetta í raunveruleikanum? Við gætum talað t.d. um BTA-bankinn í Kasakstan. Þar var ráðabrugg um að nýta vanþekkingu á því hverjir væru raunverulegir eigendur til að flytja 6 milljarða dollara úr landi fyrir nokkrum árum. Það er kannski betra að tala um dæmi frá Úkraínu sem ég þekki vel þar sem tveir menn sem voru nágrannar í litlu þorpi komust að því að einn daginn, að vísu fyrir tilstilli ágæts félaga míns, að þeir voru hvor um sig eigendur að rúmlega milljarði dollara. Þá var það þannig að einhver hafði komið og gengið um götuna og fengið þessa menn til að skrifa undir eitthvað og þeir héldu að þetta væri úttekt á landeign eða eitthvað þannig. En þá var verið að stofna fyrirtæki í þeirra nafni til að miðla peningum í þeim tilgangi að taka þátt í einu stærsta peningaþvætti sem ég hef séð. Fjármunir frá Rússlandi voru sendir í gegnum banka í Lettlandi annars vegar og Tékklandi hins vegar, með fulltingi gervifyrirtækja í Úkraínu og víðar, til Bretlands þar sem voru fyrirtæki í óskýru endanlegu eignarhaldi sömu auðmanna og peningarnir byrjuðu hjá. Allt þetta var klappað og samþykkt hjá dómstólum í Moldóvu. Þetta er náttúrlega algjörlega sturluð hugmynd. En þetta gerist og í þessu tiltekna máli vorum við að horfa upp á í kringum 120 milljarða dollara yfir nokkurra ára tímabil.

Annað dæmi er frá Aserbaídsjan þar sem breskt fyrirtæki fékk námuréttindi á gulli í þorpinu Chovdar. Eftir að það hóf námuvinnslu þurrkaðist vatnsbrunnurinn í þorpinu upp. Það gerði það að verkum að þorpsbúar höfðu ekki aðgang að vatni lengur og þeir kenndu að sjálfsögðu Bretunum um, þeim sem komu og byrjuðu að grafa eftir gulli. Þegar nánar var að gáð var kvittað upp á námuleyfið beint af forsetanum sjálfum en ekki af námumálaráðherranum. Ókei, það kann að vera eðlileg skýring á því. En þegar nánar var að gáð var breska fyrirtækið í eigu fyrirtækis á Mön. Það fyrirtæki var í eigu tveggja fyrirtækja í Panama. Þessi tvö fyrirtæki voru endanlega skráð í eigu dætra forsetans.

Þetta er mynstur sem kemur upp aftur og aftur úti um allan heim og við skulum ekki vera svo barnaleg að halda að þetta gerist ekki á Íslandi. Við höfum nýlega talað um Samherjamálið. Við höfum oft áður talað um fjölmarga Íslendinga sem hafa verið með fyrirtæki á aflandseyjum, Tortóla og Kýpur og víðar. Við vitum það að Íslendingar eru ekki englar frekar en aðrir en einhverra hluta vegna höfum við hummað þetta fram af okkur og sinnt þessu með ófullnægjandi hætti í rúmlega 29 ár. Auðvitað getum við lagað þetta og við skulum bara muna það að allt sem við gerum hér á landi er ekki lengur gert í einhverju séríslensku samhengi þar sem við öll getum verið rosalega hamingjusöm með allan uppganginn á Íslandi heldur gerist það í alþjóðlegu samhengi þar sem raunverulegt fólk verður fyrir skaða vegna peningaþvættis og eignatilfærslna sem eru gerðar með ólögmætum hætti. Við verðum að vita um raunverulega eigendur vegna þess að það er í rauninni skásta leiðin sem við höfum til að reyna að sporna við skattaskjólum og eignarhaldsfelustöðum sem eru úti um allan heim.

Höfum líka í huga að FATF er ekki heldur stofnað af englum. Löndin tvö sem þrýstu á að Ísland yrði sett á gráa listann voru Bretland og Bandaríkin, að mér skilst. Bæði þessi ríki reka víðtæk skattaskjólsnet. Þau eru náttúrlega ekki beintengd þeim, það mætti segja að þau séu ekki skráð sem raunverulegir eigendur þessara skattaskjólsneta, en það er engu að síður þannig að ekkert stórt peningaþvættismál sem ég hef séð hefur ekki farið í gegnum London. Þau fara alltaf í gegnum London. Bretar vita þetta alveg og þeir gætu tekið á þessu ef þeir vildu með því t.d. að setja harðari reglur gagnvart skattaskjólum sem eru vissulega hluti af krúnu bresku drottningarinnar. En þeir gera það ekki og það er í rauninni samþykkt að einhverju leyti að skattaskjól séu til vegna þess að þegar fólk er nægjanlega ríkt þá má það, einhverra hluta vegna í einhverju kosmísku alþjóðlegu samhengi, fara með peningana sína í svona þvottastöðvar. En það þarf ekki að vera þannig. FATF er heiðarleg tilraun til að stoppa alla vega sumar tegundir af þessari ólögmætu starfsemi. Ef land eins og Ísland vill raunverulega laga það sem er að í þessum heimi þar sem er verið að arðræna fullt af löndum úti um allt væri rétt leið til þess að beita kannski þau lönd sem settu okkur á gráa listann ákveðnum þrýstingi um að þau fari að taka til hjá sér, að þau bæti kannski við 49. skilyrðinu á skilyrðislista FATF um að styðja ekki við tilvist skattaskjóla á Tortóla og Cayman-eyjum og víðar með lögum sínum og reglum. Ég held að það myndi gera töluvert mikið gagn og það væru kannski miklu öflugri og sterkari skilaboð frá Alþingi ef við myndum gera kröfu um það heldur en bara að við rétt svo mögulega slefum upp í það í mars að uppfylla eitt af þessum skilyrðum.

Ég sagði áðan í andsvari við hv. þm. Óla Björn Kárason að ég myndi vilja leggja fram breytingartillögu þess efnis að við myndum breyta dagsetningunni úr 1. mars í 1. febrúar. Það er bara vegna þess að næsti fundur FATF er í febrúar, við vitum ekki nákvæmlega hvenær eða ég er ekki með það á hreinu. En við vitum það alla vega að í febrúar verður tekin næsta ákvörðun um það hvort Ísland verði áfram á þessum lista. Ég trúi því ekki að þau muni taka sterkum skilaboðum héðan sem einhverju aðalsmerki. Það sem þau munu gera er að líta á þetta og spyrja: Er Ísland búið að uppfylla þessi 48 skilyrði? Ef svarið er nei, þá verðum við áfram á listanum. Það er bara svo einfalt.

Ég legg til að frumvarpið verði samþykkt en ég legg til að það verði samþykkt með uppfærslu til 1. febrúar vegna þess að við viljum einmitt ekki, með svona hægagangi og aðgerðaleysi, að viðhalda þessari hryllilegu misnotkun sem viðgengst úti um allan heim.