151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef orðið vör við að það er erfitt að halda uppi rökræðum við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þegar kemur að sölu banka, þetta virðist vera svo mikið tilfinningamál fyrir hæstv. ráðherra. Ég hef sagt úr þessum ræðustól og alls staðar þar sem menn hafa viljað hlusta á þessi mál að við í Samfylkingunni viljum nýta þetta tækifæri — og það er sannarlega tækifæri í því sem allir hljóta að sjá þegar ríkið er með eignarhald á tveimur viðskiptabönkum, þá þarf ekki að taka tillit til annarra eigenda bankanna þegar verið er að endurskipuleggja — til að huga að því hvers konar bankakerfi það er sem hugnast best almenningi í landinu, sem þjónustar fólk frá vöggu til grafar, ef svo má segja, veitir húsnæðislán og lán til viðgerða á húsnæði og allt þetta sem rekstur heimilis krefst. Hvernig kerfi viljum við hafa þannig að það séu einhverjir valkostir í kerfinu þannig að þeir sem vilja taka mikla áhættu eigi þar valkosti í fjárfestingarbankastarfsemi og hinir sem vilja hafa minni áhættu í einhvers konar sparisjóði eða samfélagsbanka eigi völ á því?

Það sem við höfum sagt er: Tökum umræðuna í samfélaginu, hlustum á almenning. Samkvæmt nýjustu þremur könnunum frá 2018, 2019 og 2020 vill meiri hluti almennings ekki taka þessa ákvörðun, vill ekki einkavæða bankana í þeirri stöðu sem við erum núna. Við höfum raunverulega ekki tekið þessa umræðu. Málið snýst ekki bara um það hvað við ætlum að græða mikið á bankanum, hvað hlutirnir eiga að kosta, heldur hvernig við getum (Forseti hringir.) búið til bankakerfi sem þjónustar venjulegt fólk og hlúir að hag almennings.