151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:09]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni andsvarið. Aftur virðist hv. þingmaður búinn að gefa sér þær forsendur að þeirri sem hér stendur þyki það alltaf góð hugmynd að bankar séu í ríkiseigu og að ríkið eigi að eiga alla þessa banka áfram og standa í bankarekstri. Það er ekki svo. Það var verið að kalla eftir upplýsingum og forsendum. Ég skal setja þetta í mjög einföld orð: Ef ríkisstjórnin vill selja Íslandsbanka þarf hún fyrst að selja það þjóðinni og þinginu að það sé góð hugmynd. Það hefur skort upp á þá vinnu, þann sannfæringarkraft sem þarf til að gera þetta í sátt, sem mér heyrist kallað eftir. Það er vilji til þess að gera þetta í sátt en þá þarf að ráðast í það samtal. Það getur ekki verið að menn séu að reyna að leita eftir sátt þegar þeir geta ekki svarað spurningum eins og þeim hversu stóran hluta eigi að selja. Komið fram með upplýsingarnar. Hvers vegna standa menn svona fast á sannfæringu sinni um að það sé fínt að gera þetta núna, það þarf að koma upp á borðið.

Mikið hefur verið talað um aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabanka í gegnum tíðina og að því er mig minnir hefur hæstv. fjármálaráðherra ekki verið alveg sammála því að það sé góð hugmynd að öllu leyti. Hann hefur hins vegar talað um varnarlínu milli áhættusamrar fjárfestingarstarfsemi og viðskiptabanka. Hvar er það statt? Hvar er sú vinna stödd? Það myndi draga rosalega úr áhættu við gjörning eins og þann sem við ræðum í dag. Það er svoleiðis samtal sem ég hefði viljað að við hefðum getað farið djúpt og almennilega í.