154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

Störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Valgerður Árnadóttir (P):

Forseti. Ríki heims funda þessa dagana um loftslagsvandann í Dúbaí á COP28. Þar er Ísland aðili að loftslagshamfarasjóði sem hefur það hlutverk að veita stuðning vegna tjóns sem fátækari ríki verða fyrir vegna loftslagsbreytinga. Það er vel þó að ég telji til skammar að ríkisstjórninni finnist litlar 80 milljónir vera ásættanlegt framlag í þann sjóð. Þetta sýnir enn og aftur að í loftslagsmálum er meira um fögur fyrirheit en efndir af hálfu Íslands.

Loftslagsváin er alþjóðlegt vandamál sem hefur mjög ólík áhrif eftir því hvar fólk er búsett. Þannig eru áhrifin bæði alvarlegri og valda meiri eyðileggingu í því sem er oft kallað hið hnattræna suður, en það eru fátækari ríki heims sem hafa færri úrræði til að aðlaga sig eða bregðast við hamförum af völdum loftslagsbreytinga. Við hér í norðri höfum fleiri úrræði til að takast á við ástandið og þurfum að hafa það að leiðarljósi á öllum stigum. Íslensk stjórnvöld þurfa að taka ábyrgð á sínum þætti í að skapa það neyðarástand sem nú ríkir og styðja fátækari ríki til að aðlagast og byggja upp græna innviði með réttlátum umskiptum, auðmýkt og mannúð að leiðarljósi. Loftslagsflóttafólk er fólk sem hefur þurft að flýja heimkynni sín vegna áhrifa loftslagsbreytinga sem leitt hafa til öfga í veðurfari, þurrka, flóða, hækkandi vatnsyfirborðs, ástands sem leiðir til fæðuskorts og til vopnaðra átaka. Í dag eru um 110 milljón manns á flótta og því er spáð að neyðarástand í loftslagsmálum muni leiða til allt að milljarðs fjölgunar. Við getum ekki bæði synjað flóttafólki um hæli og neitað að axla ábyrgð á okkar hlut í að skapa vandann. Ég kalla eftir því að við öxlum ábyrgð, að við viðurkennum að við séum ekki að gera nóg, horfumst í augu við það og gerum betur. Grænþvottur þessarar ríkisstjórnar er ekki lengur í boði.