144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárþörf heilbrigðisþjónustu.

[14:00]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svarið. Þessi ríkisstjórn ákvað að setja 80 milljarða rúmlega í skuldaniðurfellingu til heimilanna sem mörg hver þurfa ekkert á þeim fjármunum að halda, þeirra heimila sem tóku verðtryggð fasteignalán. Meira að segja er það þannig að í nýrri úttekt Seðlabankans kemur í ljós að hrein eign heimilanna hefur ekki verið hærri frá aldamótum, ef frá eru talin árin 2005–2007. Ég hef talað um það margoft hér í ræðustól að mér finnst þeim fjármunum illa varið og ég mundi frekar vilja setja þá í samgöngur, heilbrigðiskerfið og greiða niður skuldir ríkissjóðs, fyrst og fremst.

Getur hæstv. heilbrigðisráðherra sem studdi skuldaniðurfellinguna komið hér í ræðustól og sagt að honum finnist forsvaranlegt eins og ástandið er, að setja 80 milljarða plús, vegna þess að við eigum eftir að taka inn í þetta kostnaðinn sem Íbúðalánasjóður verður fyrir, á fjórum árum í aðgerðir til heimilanna? Við vitum ekki einu sinni hvaða áhrif þessar aðgerðir hafa. Það hefur ekki verið rannsakað. Á sama tíma horfum við á heilbrigðiskerfið í alvarlegum vanda. Ég tek undir að það er að mörgu leyti gott (Forseti hringir.) og við viljum halda því þannig. Þess vegna spyr ég að þessu.