149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

styrkir til kaupa á hjálpartækjum.

351. mál
[17:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn fyrir umræðuna og hv. fyrirspyrjanda fyrir spurninguna og hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir hans aðkomu að þessari umræðu. Ég tek undir það hjá bæði honum og fyrirspyrjanda að hjálpartækin eru náttúrlega til að jafna aðgengi og til að tryggja og stuðla að aukinni samfélagsþátttöku allra og ætti þess vegna ekki að vera gjald fyrir. Það væri auðvitað langeðlilegast að hugsunin væri sú að þetta væri eðlilegt framlag samfélagsins til að allir geti tekið þátt í því að móta samfélagið og taka þátt í því.

Af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um stoðtækjafræðinga vil ég segja að almennt er ég þeirrar skoðunar að við eigum að auka fjölbreytni í aðkomu mismunandi fagstétta í heilbrigðismálum öllum. Vil ég þá líka nefna iðjuþjálfa sem eru auðvitað gríðarlega mikilvægir í því efni sem hér er verið að ræða.

Ég vil líka segja, af því að hv. þingmaður byggir sína fyrirspurn kannski fyrst og fremst á sykursýki og þeirri umræðu, að til mín hafa komið fulltrúar ýmissa sjúklingahópa sem hafa verið að ræða þessi mál. Ég nefni þá sem eru með öndunarfærasjúkdóma og hafa þurft að nota hjálpartæki af þeim sökum, psoriasis-sjúklinga og sjúklinga sem glíma við ýmiss konar taugasjúkdóma. Ég vil geta þess í lokin að samkvæmt ákvörðun þingsins hef ég lagt fram sérstaka skýrslu núna um sykursýki. Hún er ekki lögð fram til umræðu en það kann vel að vera að rétt sé að ræða um hana þegar við erum komin inn á nýtt ár. Það er búið að dreifa henni hér sem þingskjali og er um að ræða skil hóps til mín og síðan utanumhald ráðuneytisins á þeirri skýrslu.

Loks vil ég segja að ég hef miklar væntingar til þess að nefndin sem ég gat um áðan fjalli um þetta ítarlega og að tillögurnar verði til þess fallnar að horfa til þeirra við úrlausnir í framtíðinni. Ég þakka enn góða umræðu.