133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

fæðingar- og foreldraorlof.

428. mál
[12:50]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta frumvarp sem ég er samþykkur. En ég vil í fyrsta lagi geta þess að ég hafði ákveðnar efasemdir um flutning á þessum verkefnum frá Tryggingastofnun yfir til Vinnumálastofnunar. Þeim var prýðilega sinnt í Tryggingastofnun að mínu mati.

Hins vegar kom í ljós að undirbúningur undir þennan flutning var mjög vel á veg kominn enda stendur hann fyrir dyrum innan fárra vikna þannig að þar verður ekki aftur snúið og vona ég að vel takist til í starfseminni og á ekkert nema góðar óskir til þeirra sem koma til með að sinna þessum verkum.

Ég vil mótmæla þeim hugmyndum sem fram komu hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að æskilegt sé að bjóða út starfsemi af þessu tagi. Í því þótti mér felast ákveðið vantraust, ef ekki vanvirðing, í garð þeirra sem hafa sinnt þessum verkefnum. Ég held sannast sagna að þetta yrði miklu dýrara með þessu móti, að minnsta kosti þegar fram í sækti.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta frumvarp en fagna því sérstaklega hvernig þar er tekið á atriðum sem varða umönnunargreiðslur. En fram til þessa hafa greiðslur í fæðingarorlofi og réttur til umönnunargreiðslna ekki farið saman, þ.e. þeir foreldrar sem hafa átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði hafa ekki á sama tíma átt þennan rétt varðandi umönnunargreiðslurnar. Nú er þetta fært til betri vegar og er það sérstakt fagnaðarefni.