135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

tollalög.

229. mál
[14:12]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum, sem er að finna á þskj. 448 frá hv. efnahags- og skattanefnd.

Í þingskjalinu er getið um gesti og umsagnir sem bárust en í frumvarpinu eru lagðar til fimm breytingar á tollalögum. Í fyrsta lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að tollstjóranum í Reykjavík verði í stað fjármálaráðuneytis falið að annast afgreiðslu tiltekinna leyfisveitinga. Í annan stað er lagt til að viðmiðun við ákvörðun tollafgreiðslugengis verði breytt og að hún verði framvegis miðuð við daglega gengisskráningu í staðinn fyrir mánaðarlega. Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir nýrri tegund geymslusvæðis er ber heitið umflutningsgeymslur. Í fjórða lagi er lagt til að öðrum lögaðilum í atvinnurekstri en farmflytjendum og tollmiðlurum verði heimilað að reka afgreiðslugeymslur. Í fimmta lagi eru lagðar til smávægilegar lagfæringar á einstökum ákvæðum laganna vegna brotthvarfs varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Fram kom að tillaga frumvarpsins, um breytta viðmiðun tollafgreiðslugengis, hefði verið unnin að höfðu samráði við Hagstofu Íslands. Um ástæður þess að tollyfirvöld hefðu ekki hagað framkvæmdinni með þessum hætti fyrr var vísað til þess að það hefði ekki verið tæknilega framkvæmanlegt. Þá ræddi nefndin líkleg áhrif þessarar breytingar á tekjur ríkissjóðs og var það að mestu mat gesta að þær mundu standa í stað þótt erfitt væri að sjá það fyrir.

Á fundum nefndarinnar var einnig rætt hver áhrif flutningur á afgreiðslu leyfisveitinga úr fjármálaráðuneyti til tollstjórans í Reykjavík mundi hafa á stöðu landsbyggðarinnar. Kom fram að tollafgreiðsla færi að langstærstum hluta í gegnum embætti tollstjórans í Reykjavík. Ekki væri ástæða til að ætla að þessi tilfærsla á verkefnum hefði neikvæð áhrif á landsbyggðina. Nefndin bendir þó á að verkefni embættisins varða mikilsverða þætti í starfsumhverfi fyrirtækja og undirstrikar mikilvægi þess að gætt sé jafnræðis.

Nefndin leggur til smávægilegar breytingar í því augnamiði að laga tilvísanir í einstökum ákvæðum laganna að breytingum frumvarpsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fram koma í þingskjalinu sem nefndarálitið er á. Hv. þm. Bjarni Benediktsson, Gunnar Svavarsson og Katrín Jakobsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, Magnús Stefánsson, Ragnheiður E. Árnadóttir og Lúðvík Bergvinsson.