141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:27]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að bregðast við nokkrum atriðum í ágætri ræðu hv. þingmanns en við sitjum saman í fjárlaganefnd Alþingis.

Fyrst vil ég nefna um fjárlagagerðina sjálfa að ekki er hægt að halda því fram að hún hafi ekki tekið gagngerum breytingum á liðnum árum. Bara á þessu kjörtímabili má segja að búið sé að endurskipuleggja aðdragandann að vinnu fjárlaganefndar og vinnuna sjálfa og þar með alla vinnu við fjármál ríkisins. Taka má eitt dæmi sem samstaða var um þvert á flokkana, fyrir utan einn flokk í fjárlaganefndinni, en flokkur hv. þingmanns tók þátt í því, það var þegar safnliðavinnunni allri var útvistað út úr nefndinni. Þá gafst okkur óhemjumikill tími til þess að vinna að öðrum þáttum fjárlagagerðarinnar en þeim sem lutu að safnliðum. Þau mál eru komin til fagráðuneyta og menningarsjóða víðs vegar um landið, komin heim í héruð. Ég held að það verklag hafi verið mjög til bóta.

Hitt sem ég vildi nefna varðar umfang samneyslunnar sem þetta snýst náttúrlega allt um. Hvert á stig samneyslunnar að vera og hvert á það að ná? Segja má að eftir áratuginn þar á undan þar sem samneyslan jókst alveg gríðarlega, ég held um 50% á tæpum áratug, þá þurfti að tóna hana mjög niður, um fimmtung núna á tveim, þrem árum. Og þá fór fram mjög gagnger endurskoðun á því hvað ætti að standa eftir í ríkisrekstrinum. Hvað er það sem við eigum að borga saman úr sameiginlegum sjóðum? Þá komu öll velferðarmálin í allri sinni mynd, menntunarmálin, öryggismálin, löggæslumálin og samgöngumálin. Það var mjög erfitt verkefni sem hv. þingmaður þekkir mjög vel. Ég vil því spyrja hvaða tillögur út frá þessari forgangsröðun hv. þingmaður gæti nefnt til sögunnar sem við ættum að sneiða af samneyslunni og þess sem við borgum úr hinum sameiginlegu sjóðum, til dæmis við fjárlagagerðina núna?