150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Það er einmitt þetta með þá hópa sem ekki náðu að skila inn umsögn í þessu máli af því að umsagnarfresturinn er mjög skammur. Þá vil ég upplýsa hv. þingmann, sem jafnframt er nefndarmaður í nefndinni, um það að ég óskaði sérstaklega eftir að fá umsagnir frá námsmönnum, frá Félagi einstæðra foreldra, frá Félagi um foreldrajafnrétti, frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna, frá Afstöðu og frá fleiri félagasamtökum en við fengum iðulega þau svör að það væri ekki tími og það var náttúrlega alls ekki tími til að kalla þessa aðila fyrir nefndina. Það er auðvitað staðan. Þá veltir maður fyrir sér skiptingunni, hvort það eigi að vera að taka ákvörðun. Til þess að upplýsa það hér þá var umræða í nefndinni um hvort það ætti þá í raun að hafa þessa þrjá hluti jafna. Einhverjir vilja ekki hafa nein skil, einhverjir vilja að þetta verði á endanum alveg sex mánuðir og sex mánuðir. Það þarf alla vega að eiga sér stað umræða um það. Eins og þetta er þá eru ákveðin börn sem fá minni tíma. Og það er ekki eins og það sé eitthvert kerfi sem tekur við. Það er ekki eins og ungbarnaleikskólar séu þess eðlis að allir, líka þeir sem hafa mögulega lítið á milli handanna, geti hreinlega nýtt sér þá af því að þeir eru mjög dýrir. Við erum einhvern veginn komin í algjört öngstræti sem bitnar mest á börnum efnaminni foreldra. Við þurfum alla vega að klára umræðuna um þetta og það fáum við því miður ekki að gera hér.