151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:17]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég og hv. þingmaður verðum einfaldlega að vera ósammála um þetta, sem væri ekki í fyrsta skipti sem við erum ekki algjörlega einhuga. Mér fannst hv. þingmaður nefnilega sleppa því úr ræðu minni sem er lykillinn að henni, sem er að segja að þetta sé sambærilegt fyrir utan fjármögnun, eitthvað í þá veru bögglaðist út úr mér. Alveg óháð því hvort ég fari í nokkru sinni í Skaftfell á Seyðisfirði þá fer hluti af skattpeningum mínum þangað, sem betur fer. Ég vildi að það væri hærri upphæð sem færi þangað. Alveg óháð því hvort ég fari á sinfóníutónleika fer hluti af skatttekjum mínum þangað, frábært. Alveg óháð því hvort ég hafi notað mér alla þá vegi sem lagðir hafa verið alls staðar úti á landi — ég mun sennilegast aldrei héðan í frá ganga í grunnskóla í Ísafjarðarbæ en mér finnst fínt að hann hafi á sínum tíma verið fjármagnaður í gegnum opinbera sjóði og skatttekjur. Mér finnst mjög fínt að alls kyns þjónusta um allt land sem ég mun aldrei nýta mér, kannski ekki hæfur til þess og orðinn of gamall eða bara einfaldlega af því að ég bý annars staðar, sé fjármögnuð. Ég þarf ekki að njóta alls þess sem ríkið fjármagnar í gegnum skatttekjur. Ríkisútvarpið er fjármagnað á annan hátt. Það er kannski eitthvað sem við ættum að ræða einhvern tímann. Ætti að skoða hvort ohf. sé endilega sniðugt form? Ætti þetta bara að vera eins og Sinfónían, eins og Þjóðleikhúsið o.s.frv.? Ég tek fram, forseti, að ég er ekki að leggja það til en mér finnst þetta spurningar sem er vert að spyrja. En þjónustan er ekkert öðruvísi en þjónusta Þjóðleikhússins, en þjónusta Sinfóníunnar, en þjónusta Skaftfells menningarmiðstöðvar o.s.frv.