154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[12:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta eru svo sannarlega búnar að vera áhugaverðar umræður hér í dag og við því að búast þegar svona niðurstöður koma fram eins og varðandi PISA. Sjálf hef ég nú starfað innan þessa geira talsvert lengi áður en ég kem hér á þing og á tveimur skólastigum, þ.e. í grunnskóla og í framhaldsskóla, og horft á alls konar breytingar sem hafa áhrif á líðan nemenda en ekki síst kannski einmitt áhrif tækninnar og hvernig hún breytist, bæði til góðs og svo ráða sumir auðvitað eðli máls samkvæmt ekki við það eins og í svo mörgu öðru.

Ég ætla að byrja á að segja að það er afar góð grein á Vísi eftir forseta menntavísindasviðs Háskóla Íslands um einmitt þessi mál og hvernig við þurfum að taka þetta áfram og vinna með þetta því að þetta er ekki stóridómur í neinu samhengi þó að ein könnun komi með þessum hætti út en það ber sannarlega að taka hana alvarlega. Við höfum rætt hér áður í þingsal um ástandið í lesskilningi og áskoranir sem fylgja því að viðhalda örtungumáli eins og íslenskan er og ég held að við séum allflest mjög þess þenkjandi að vilja viðhalda henni. Og í skýrslu þessari eru settar fram tillögur sem eiga að vera þess valdandi að geta bætt og eflt bæði nám og kennslu og margs konar aðgerðir. Það er m.a. útgáfa á gæðanámsefni sem ég tel að hafi verið mikill skortur á til langs tíma, og eins og hér hefur verið rætt líka að námskrár séu skýrar, það sé góð þróun í starfi fólks sem vinnur innan geirans, og eins og hefur verið rætt líka og kom fram í þessari skýrslu að það vantar kannski kennara sem hafa náttúrufræði og stærðfræði sem sérmenntun til að fylgja betur eftir og efla í rauninni læsi á þeim vettvangi líka og lesskilning og ekki síst í dreifðu byggðunum. En svo þurfum við bara að halda áfram að vera með rannsóknir í skólakerfinu bara svona almennt.

Það sem kannski hefur mest verið rætt hér og er undir er hvort einhver ein aðferð er réttari umfram aðrar. Það tel ég ekki. Svona ef maður horfir til þess þá erum við nú bara fólk alls staðar og við erum öll í sjálfu sér eins þótt við séum með ólíka menningu eða uppeldi eða aðra félagslega þætti sem kannski eru ekki eins en móta okkur. Það er í sjálfu sér ekki eðlismunur á því hvar við fæðumst.

Við höfum líka heyrt að við eigum að taka upp skólakerfi Finna að því að það sé svo frábært og svo er rætt um að nemendur séu latir og allt of uppteknir við símana og hafi látið tæknina trufla sig og ýmislegt fleira þegar við erum að reyna að finna út úr því af hverju árangurinn er lakari en við vildum kannski flestöll sjá. Eins og með svo margt annað þá eru auðvitað ýmsir þættir, eins og ég segi, sem hérna eru undir, því er ekkert að leyna, og ég ætla að leyfa mér að segja að sem betur fer fara nú svona allflest íslensk börn í gegnum þessa könnun. Mjög víða annars staðar eru þetta úrtök og Þýskaland var nefnt sem dæmi þar sem 4.500 nemendur fara í gegn. Ég myndi vilja að skólar fengju þessar niðurstöður fyrir sína skóla, ég tel það skipta máli, og skólar geti nýtt sér þetta til góðra verka innan sinnar stofnunar og er ekki sammála því sem hefur komið fram hjá, ég held að það hafi verið Menntamálastofnun, að það hefði ekkert upp á sig að afhenda skólum þetta, að af því að skólarnir, eins og hér hefur líka verið rætt, eru ólíkir. Starfsfólk og kennarar eru líka ólíkir og beita ólíkum aðferðum.

Það má velta því upp hvort ekki skorti matstæki til að bera saman við meðaltöl sem verið er að leggja og bera á borð fyrir okkur. Eins og hefur verið nefnt er mikið frelsi til að meta hæfniviðmiðin út frá aðalnámskránni. Það að það sé ekki samræmt milli skóla getur bæði verið gott og vont en fyrst og fremst held ég að hver skóli sé sannarlega, og starfsfólk hans, að reyna að finna út úr því hvernig best megi ná utan um þetta, af því að það er gríðarlega flókið, ætla ég að leyfa mér að segja, og með erfiðari störfum að vera kennari, leikskólakennari og kennari, sérstaklega í grunnskóla. Það er bara mjög snúið eins og við höfum heyrt. Það eru alls konar viðfangsefni sem þarf að takast á við innan hvers bekkjar og margt sem þar er undir. Þannig að það er alls ekki einfalt og ekki hægt að segja bara: Við setjum svo mikla fjármuni. Jú, jú, við gerum það og getum örugglega gert betur og unnið betur úr. En það er ekki bara þar sem vandinn liggur að mínu mati af því að íslenskir nemendur eru ekki lakara námsfólk heldur en hjá frændþjóðum okkar. Það er bara ekki þannig.

Auðvitað er allt svona ágætistækifæri til að fara í einhvers konar naflaskoðun og velta fyrir sér hvað það er sem gæti legið þarna undir. Eins og hér var vikið að af síðasta ræðumanni erum við með áætlun þar sem við erum að reyna að takast m.a. á við við þetta, þ.e. að setja utan um þetta góðan ramma og takast á við þetta verkefni og lestur og lesskilningur er einmitt eitt af því viðfangsefni.

Maður hugsar til þess hvað það er stutt síðan Covid var, hvað okkar fólk stóð sig gríðarlega vel í skólasamfélaginu. Ég held að það megi segja að ánægjulega niðurstaðan í þessu, af því að þetta er vegna 2022, sé að nemendum líður betur svona almennt í skólunum þó að það séu undantekningar frá því í heildarniðurstöðunni. Samt er það auðvitað jákvætt og það er eitt af því sem við þurfum að horfa til og taka með og vera ánægð með.

En mig langaði af því að hér er einhvern veginn hættan — ég segi að það sé hætta vegna þess að Íslendingar eru gjarnan þannig að þeir ætla allir að verða ríkir á einhverju einu, fyrst var það minkur og refur og svo fiskeldi og einhvern veginn ætlum við öll að gera eitthvað þannig, og nú á að vera einhver ein lestraraðferð eða kennsluaðferð sem sumum finnst að eigi bara að vera alltumlykjandi af því það er að skila góðum árangri einhvers staðar. Ég er algjörlega mótfallin því og tel að í rauninni það sem við þurfum að vera með sé fyrst og fremst bara læsishvetjandi umhverfi, þar sem við getum kveikt áhuga, og það sé almennt bara jákvætt að lesa, þetta sé ekki einhver neyð. Ég sé það bara, eigandi börn á mismunandi aldri, hvernig lestur bóka fer dálítið, þ.e. eldri barnanna og yfir til þess yngsta, yfir í það að lesa á skjá. Það er ekkert að því í sjálfu sér ef um er að ræða bara lestur, finnst mér. Það er fyrst og fremst það að þau séu að lesa. Það er líka svo mikilvægt að börn átti sig á því hvers vegna þau eru að lesa, að hverju er stefnt og til hvers það er, hvað það í rauninni gefur þeim til lengri tíma, af því það er auðvitað það sem skiptir máli. Hvort við erum að nota byrjendalæsi eða gagnvirkan lestur eða hugtakakort eða orð af orði eða læsisfimmuna eða kveikjum neistann eða hvað þetta allt saman heitir — aðalmálið er að nemendur finni það hjá sér að þetta sé eitthvað sem kemur til með að skipta þau máli.

Ég vil meina, og kannski er ein af þessum hættum að þegar — af því að yndislestur er kannski miklu algengari í yngri bekkjunum og það að lesa saman, að tveir nemendur jafnvel lesi saman og annað slíkt eða kennarar og nemendur lesi saman, að það haldi áfram upp unglingastigið, að það hætti ekki eða dragi svo mikið úr því að þau sjái einhvern veginn ekki tilgang með því. Það er kannski það sem þarf einmitt að gera, að þau finni eitthvað við sitt hæfi sem þeim finnst gaman að fjalla um og lesa, eins og ég segi, hvort heldur er í bók eða á neti og það þarf að ræða það sem verið er að lesa af því að öðruvísi verður lesskilningurinn ekki til. Ekki síst hjá þeim sem eru kannski að ströggla við að lesa þá þarf að mínu mati alla vega að eiga sér stað samtal um það sem verið er að lesa og að nemendur átti sig á því að þau geta ekki bara, af því að hér var verið að nefna hraðlestur áðan, bunað út úr sér einhverju og haldið að það dugi að þau séu lesa nógu mörg orð eða seinna meir að það að lesa í tíu mínútur sé bara að lesa í tíu mínútur en svo muni þau ekkert um hvað þau voru að lesa. Það er líka eitt, að halda þeim við efnið, þ.e. að muna eitthvað. Þessi áskorun felst í þessu líka.

Hér var nefnt umhverfið. Við erum eins og kom fram í aðgerðaáætluninni með 13% af starfsfólki í leikskólum sem er erlent, þ.e. er ekki með íslenskt móðurmál. Það er líka snúin staða og þar þurfum við líka að standa okkur betur í að mennta fólk og gefa því tækifæri til að læra íslensku. Mörg segja reyndar að það sé besti skólinn að vera með litla fólkinu okkar. En þetta er áskorun samt sem áður og ekki síst þá líka einmitt að við tökum utan um nemendur af erlendum uppruna sem eiga íslensku ekki að móðurmáli. Þau njóta kannski ekki sama stuðnings gagnvart íslenskunni heima og lesskilnings og ná eðli máls samkvæmt kannski ekki endilega því sama og börn sem eiga það að móðurmáli. Þar þarf skólinn að koma enn frekar inn í og nærumhverfið.

Þannig að ég held, ef okkur lánast að taka þessar niðurstöður okkur til gagns, að við getum með þeim hætti bara búið til þessa einstaklinga sem við þurfum á að halda sem gagnast í nútímasamfélagi þar sem þau eru með gagnrýna hugsun, þar sem þau geta unnið saman, þar sem þau geta tjáð sig. Þá auðvitað erum við að ná árangri í þessari lykilhæfni sem felst í því að lesa og skilja, sem sagt lesa sér til gagns eins og sagt er.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma hér upp, málið er mér skylt. Hafandi starfað í þessu lengi og kennt mörgum að lesa þá finnst mér þetta vera auðvitað áminning inn í umhverfið eins og það er. En um leið held ég að þetta sé enginn dauðadómur eða neitt slíkt heldur fyrst og fremst áminning um að við getum gert betur og við þurfum að fara ofan í það hvar það er sem við erum að gera vel og hvar það er sem við getum gert enn betur.