154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, hv. þm. Kristrún Frostadóttir, er búinn að fara yfir stóru myndina og einnig einstaka liði sem við í Samfylkingunni viljum sérstaklega leggja áherslu á fyrr í þessari umræðu. Auðvitað er fjárlagafrumvarpið fullt af tölum sem hafa áhrif á líf okkar allra á árinu 2024 og það er af nógu að taka til að ræða um en ég ætla að halda mig við nokkur atriði sem varða kjarapakka okkar í Samfylkingunni og Samkeppniseftirlitið og svo stöðuna í Grindavík.

Ástandið hér á landi er þannig að við erum með mjög háa stýrivexti, 9,25%, og verðbólgan er 8%. Hún virðist ekki vera á niðurleið og ekki vaxtastigið heldur og þetta skapar afkomuvanda á heimilunum og líka í smærri fyrirtækjum. Verðbólgan fór upp eftir heimsfaraldurinn úti um alla Evrópu og einnig höfðu afleiðingar stríðsins í Úkraínu svipuð áhrif en verðbólgan hefur hjaðnað hraðar og hratt í löndunum í kringum okkur sem við viljum helst bera okkur saman við en við erum enn þá á þessum stað. Það er mjög mikilvægt til skamms tíma, strax á árinu 2024, að koma með öflugar mótvægisaðgerðir til heimilanna til að þau geti klofið þetta ástand. En til lengri tíma þurfum við auðvitað að skoða hvað það er sem er svona sérstakt hjá okkur. Hvað er það sem greinir okkur frá hinum Evrópuríkjunum sem við viljum helst bera okkur saman við? Auðvitað er augljóst að við erum með minnstu sjálfstæðu mynt í heiminum og það er samband á milli gengis íslensku krónunnar og vaxta, verðlags og verðbólgu. Það er augljóst og óumdeilt. Hins vegar skýrir það ekki allt í þessu ástandi sem við búum núna við.

Það er annað sem er sérstakt hér. Ferðaþjónustan er mjög stór í kerfinu okkar og miklu stærri en í öðrum ríkjum, stærri meira að segja heldur en á Ítalíu, Spáni og Grikklandi, stórum ferðamannaríkjum. Við erum komin fram úr þeim að þessu leyti og til skamms tíma lagaði það efnahaginn mjög hratt hér á landi þegar ferðaþjónustan tók aftur kipp eftir Covid en til lengri tíma þurfum við að finna eitthvert jafnvægi í þessari stöðu. Gylfi Zoëga bendir á í grein í Vísbendingu að jafnvel þó að vaxtahækkanir hafi slegið á hækkun húsnæðisverðs og fleiri íbúðir séu til sölu og húsnæðisverð lækkað að raunvirði, háir vextir hafi slegið á einkaneyslu og innlenda fjárfestingu, geti stýrivextir Seðlabankans ekki slegið á fjölgun ferðamanna. Mikill fjöldi aðflutts vinnuafls verður til þess að halda húsnæðisverði háu í hlutfalli við laun. Við þurfum að skoða þessa stöðu, forseti, og fara í aðgerðir sem koma á jafnvægi að þessu leyti.

Samfylkingin hefur gagnrýnt að í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2024 og tekjubandormum sem því fylgja vanti markvissar aðgerðir til að draga úr verðbólgu og bregðast við afkomu- og húsnæðisvanda heimila. Fleiri hafa gagnrýnt þessi frumvörp á sömu nótum og Samfylkingin og í því sambandi má nefna Alþýðusamband Íslands. Stjórnvöld búa yfir stýritækjum sem geta í senn mildað og magnað ójöfnuðinn í skiptingu tekna og eigna í samfélaginu. Spurningin er aðeins hvort eða hvernig þau vilja beita þessum stýritækjum. Það virðist vera nokkuð ljóst þegar við skoðum fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2024 að það er stefna ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að það eigi ekki að beita stýritækjum til að auka jöfnuð. Ójöfnuður, hvort sem litið er til tekna eða eigna, er að aukast hér á landi. Ef stjórnvöld vilja jafna leikinn til að auka samfélagslegt traust þarf að beita bæði skatt- og bótakerfinu. Skattstefna stjórnvalda hverju sinni segir til um hvernig þau vilja búa að almenningi og hvernig stjórnvöld vilja sjá samfélagið þróast. Jöfnunarhlutverk skattkerfisins og áhrif þess á eignarmyndun og tekjudreifingu eru ekki síður mikilvæg en tekjuöflunarhlutverk þess. Í þessari stöðu sem við erum nú er nauðsynlegt að fara í mótvægisaðgerðir sem ég vil koma nánar að á eftir en það þarf að fjármagna þær og það er best að gera með því að reyna að jafna leikinn með því að ná í tekjur þar sem aðilar hafa hagnast á þessu ástandi sem við búum við núna.

En þrátt fyrir að Ísland standi vel á öllum alþjóðlegum mælikvörðum um efnahag og jöfnuður mælist hér mikill ríkir kerfisbundinn vandi þegar kemur að stöðu og lífsskilyrðum fatlaðs fólks á Íslandi. Stór hluti fatlaðs fólks á Íslandi býr við sárafátækt og lífsskilyrði lífeyristaka eru töluvert verri en launafólks. Tæplega sjö af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að efna til skuldar og meira en helmingur metur fjárhagsstöðu sína verri nú en fyrir ári síðan. Staða einhleypra foreldra er sérstaklega alvarleg. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, og ÖBÍ réttindasamtaka sem kynntar voru í gær. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þessar, með leyfi forseta:

„Ríflega þriðjungur býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort.

Tæplega tveir af hverjum tíu búa við verulegan efnislegan skort eða sárafátækt.

Tæplega sjö af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar“ — eins og áður sagði.

„Meira en helmingur metur fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun verri en fyrir ári síðan.

Helmingur þarf að neita sér um félagslíf vegna fjárhagsstöðu sinnar.

Fjögur af hverjum tíu þurfa að neita sér um nauðsynlegan klæðnað og næringarríkan mat.

Slæm fjárhagsstaða kemur í veg fyrir að hægt sé að greiða grunnþætti fyrir börn.

Tæplega fjögur af hverjum tíu geta ekki greitt kostnað vegna tómstunda, félagslífs eða gefið börnum sínum jóla og/eða afmælisgjafir.

Fjárhagsstaða einhleypra foreldra með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk er á öllum mælikvörðum verst.

Ríflega þrjú af hverjum tíu búa við verulegan skort á efnislegum gæðum.

Tæplega níu af hverjum tíu einhleypum mæðrum geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar.

Fjórðungur einhleypra mæðra hefur þurft mataraðstoð á síðastliðnu ári.

Tæplega helmingur einhleypra foreldra getur ekki veitt börnum sínum nauðsynlegan klæðnað eða eins næringarríkan mat og þau vilja né greitt kostnað vegna félagslífs barna sinna eða haldið afmæli eða veislur fyrir börn sín.

Tæplega helmingur býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði.

Ríflega sex af hverjum tíu einhleypum foreldrum búa við þunga byrði af húsnæðiskostnaði.

Sjö af hverjum tíu búa við slæma andlega líðan.

Hlutfallið er enn hærra meðal einhleypra foreldra en ríflega átta af hverjum tíu búa við slæma andlega heilsu.

Hátt hlutfall hefur nær daglega hugsað um að það væri betra ef þau væru dáin eða hugsað um að skaða sig.

Það á við um 15% einhleypra karla, karla á endurhæfingarlífeyri, karla á aldrinum 31–50 ára og kvenna 30 ára og yngri.

Tæplega sex af hverjum tíu finna fyrir mjög eða frekar mikilli félagslegri einangrun.

Hæst er hlutfallið meðal karla á endurhæfingarlífeyri.

Ríflega fjögur af hverjum tíu hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu og sálfræðiþjónustu og er algengasta ástæða þess að neita sér um heilbrigðisþjónustu kostnaður.“

Herra forseti. Þessi upptalning er dapurleg. Ég held að það detti engum í hug að það sé sterkt velferðarsamfélag sem býr þegnum sínum slíkt líf og þessu verður að breyta. Því miður finnum við ekki í þessu fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár að það eigi að taka slík skref því það er þannig, forseti, að ef greiðslur almannatrygginga eða atvinnuleysistrygginga, vaxtabætur, húsnæðisbætur, barnabætur eða fæðingarorlofsgreiðslur hækka ekki til samræmis við laun eða verðlag er ríkisstjórnin að taka pólitíska ákvörðun um að auka ójöfnuð í landinu. Við höfum auðvitað fengið þau svör hér að það sé verið að endurskoða almannatryggingakerfið og við fögnum því en á meðan bíður fólk við þær aðstæður sem rannsóknin sem Varðan gerði lýsir og ég var að telja upp áðan. Það er óásættanlegt.

Það er mikilvægt að koma með öflugar vaxtabætur til heimilanna núna og ég er ekki bara að tala um þau heimili sem búa við erfiðustu aðstæðurnar sem ég lýsti hér áðan í upptalningu á niðurstöðum rannsóknarinnar. Það er líka þannig að venjulegt launafólk með meðaltekjur á í miklum vandræðum vegna þess að húsnæðiskostnaðurinn hefur hækkað svo ótrúlega á síðustu árum og mánuðum og það verður að koma með öflugar mótvægisaðgerðir. Vaxtabætur eru tekju- og eignatengdar bætur til þeirra sem greiða vaxtagjöld af lánum vegna húsnæðis. Viðmiðunarfjárhæðin stóð í stað í mörg ár eftir breytingar sem tóku gildi árið 2009. Það ár stóð vaxtabótakerfið undir um 20% vaxta- og verðbóta heimila. Í ár er það hlutfall nær 3%. Í umsögn ASÍ kemur fram að árið 2020 hefðu vaxtabætur þurft að vera 14,6 milljarðar kr. ef það ætti að standa undir 20% af vaxtagjöldunum sem eru mun hærri núna, þremur árum síðar. Í fjárlögum 2024 er gert ráð fyrir um 2 milljörðum kr. í vaxtabætur þannig að það er augljóst þarna að það skiptir máli hverjir stjórna og vaxtabótakerfið hefur verið látið eyðileggjast þó að það sé alveg ljóst að það kæmi launafólki í tekjulægri tíundunum mjög vel ef það yrði eflt að nýju.

Stjórnarmeirihlutinn vill að viðmið fyrir vaxtabætur verði óbreytt á milli ára, jafnvel þó að fasteignamat hafi hækkað mikið á flestum stöðum á landinu og fasteignamat er eitt viðmiðið undir ákvörðun vaxtabóta þannig að þegar það hækkar þá lækka vaxtabæturnar á móti. Áhrifin eru þau að 5.000 færri heimili munu njóta vaxtabóta á árinu 2024 en í ár. Það er undarlegt, forseti, að ríkisstjórnin skuli fara í þá átt að henda 5.000 heimilum út úr vaxtabótakerfinu þegar þörf er sannarlega á fyrir mun fleiri heimili að njóta slíkra bóta. Hæstv. ríkisstjórn er því í raun að leggja auknar álögur á skuldsett heimili þegar þörfin fyrir aukinn stuðning er mikil.

Í kjarapakka Samfylkingarinnar, sem kynntur var á dögunum, gerum við ráð fyrir hækkun vaxtabóta þannig að þær styðji 10.000 skuldsett heimili til viðbótar við þau heimili sem njóta vaxtabóta í ár. Þetta viljum við gera í stað þess að henda 5.000 heimilum út úr vaxtabótakerfinu eins og stjórnarflokkarnir kjósa. Það er líka mikilvægt, forseti, að húsnæðisstuðningurinn sem er til leigjenda haldi verðgildi sínu. En það er ekki gert ráð fyrir því í þessu fjárlagafrumvarpi og það þýðir þá að það er verið að minnka stuðning til leigjenda þegar meiri stuðningur ætti augljóslega að fara til þeirra.

Ef Ísland á að vera barnvænt samfélag líkt og við jafnaðarmenn ætlum okkur eftir næstu kosningar, fáum við til þess stuðning, verður að styðja við fleiri barnafjölskyldur. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi eru barnabætur ekki tekjutengdar en í Danmörku hefjast skerðingar við háar tekjur. Tekjutengingin er í hinum norrænu ríkjunum í gegnum tekjuskattskerfið en ekki í gegnum barnabótakerfið. Hugsunin er sú að með barnabótum séu kjör þeirra sem eru með börn á framfæri jöfnuð við kjör þeirra sem eru ekki með börn á framfæri. Barnafjölskyldur fá þannig skattalækkun en tekjuhæstu einstaklingarnir greiða hins vegar hærri tekjuskatta en hinir, hvort sem þau eru með börn á sínu framfæri eða ekki.

Við í Samfylkingunni, jafnaðarmannaflokki Íslands, viljum stíga örugg skref að barnvænu samfélagi. Til þess þarf skilvirkara barnabótakerfi en gert er ráð fyrir hjá þessari ríkisstjórn. Það allra minnsta sem stjórnvöld geta gert nú er að sjá til þess að óskertar barnabætur skerðist ekki að raunvirði en það er einmitt það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu og þar með er það skattahækkun á barnafjölskyldur í landinu. Þær fjölskyldur sem fá óskertar barnabætur eru allra tekjulægstu fjölskyldurnar á landinu en það á ekki samkvæmt frumvarpinu að láta óskertar barnabætur halda verðgildi sínu þannig að við sjáum, forseti, í hvaða átt stefnir. Ríkisstjórnin notar ekki jöfnunartækin heldur þvert á móti dregur úr áhrifum þeirra.

Við viljum í Samfylkingunni, og gerum ráð fyrir því í okkar kjarapakka, að það komi til aðgerðir til að auka húsnæðisöryggi. Við þurfum að ná stjórn á Airbnb og skammtímaleigu íbúða. Það er mikið rætt um þetta þessa dagana en það eru fáar aðgerðir ef nokkrar sem liggja á borðinu frá stjórnvöldum til að taka á þessu máli. Við verðum líka að taka upp tímabundna leigubremsu að danskri fyrirmynd og sjá til þess að það komi frekari ívilnanir til uppbyggingar á almennum íbúðum. Lögin um almennar íbúðir voru samþykkt sumarið 2016. Íbúðakerfið er tilraun til að endurreisa vísi að félagslega húsnæðiskerfinu sem var aflagt undir lok síðustu aldar með þeim afleiðingum að félagslegum íbúðum fækkaði um helming á milli áranna 1998 og 2017. Markmið laganna um almennar íbúðir er að bæta húsnæðisöryggi þeirra sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Þannig sé stuðlað að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu þeirra sem leigja húsnæði og fari að jafnaði ekki yfir 25% af tekjum þeirra. Það þarf að styrkja almenna íbúðakerfið verulega og halda áfram að byggja óhagnaðardrifnar leiguíbúðir um allt land. Meginmarkmiðið er aukið framboð leiguhúsnæðis og að húsnæðiskostnaður fólks verði í samræmi við greiðslugetu.

Brynja leigufélag segir í umsögn sinni við bandorminn, mál nr. 2, þar sem rætt er um þessi mál, að endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað við nýbyggingar, endurbætur og viðhald íbúða hafi mikil áhrif á rekstur félagsins og getu þess til að viðhalda hóflegu leiguverði. Breytingarnar sem tóku gildi 1. júlí í ár þar sem endurgreiðsluhlutfallið lækkaði úr 60% í 35% hafi haft neikvæð áhrif og í umsögnum Búseta og Félagsbústaða er sama ákall um að þessi lækkun verði afturkölluð. Við tökum undir það í Samfylkingunni og munum leggja fram breytingartillögu við bandorminn þess efnis.

Allar þessar aðgerðir, forseti, þarf auðvitað að fjármagna, eins og ég nefndi hér í upphafi ræðu minnar, og við eigum að leita þangað sem hagnaður hefur myndast af þessu ástandi sem núna leggst harkalega á heimilin í landinu. Við þurfum að hækka fjármagnstekjuskattinn úr 22% í 25% og ef við myndum gera það myndu þær álögur lenda á allra ríkasta fólkinu í landinu, þeim 10% sem búa við allra bestu kjörin. Það er frítekjumark fyrir venjulegan sparnað fólks. Við viljum ekki breyta því. En þarna viljum við hækka álögur á fjármagnstekjuskattinn. En það er í rauninni ódýrara að borga fjármagnstekjuskatt en bara venjulegan tekjuskatt sem venjulegt launafólk greiðir.

Síðan er það sem við köllum að loka ehf.-gatinu. Til skýringar þá segir í skýrslu sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa frá 2019 að það sé víðtækur misbrestur á því að reglur um reiknað endurgjald séu virtar og ætla megi að verulegur hluti atvinnutekna sé ranglega talinn fram sem fjármagnstekjur á Íslandi. Eins og ég sagði áðan þá er það hagstæðara vegna þess að það er lægri skattur af fjármagnstekjum og við þurfum að koma réttlæti á þetta.

Síðan viljum við leggja aukið álag á stórútgerðina. Tíu stærstu útgerðirnar fara með meira en helming kvótans og 20 stærstu meira en 70%. Þær mala gull og fénýta auðlind þjóðarinnar og borga of lágt veiðigjald og þarna viljum við leggja álag á. En það er eins og með fjármagnstekjuskattinn, það er inni í kerfinu frítekjumark fyrir minnstu útgerðirnar og við viljum halda því. Síðan viljum við afturkalla bankaskattinn, enda leyfi ég mér að segja, forseti, að bankarnir eru stútfullir af peningum og hafa sannarlega hagnast á þeirri stöðu sem nú er uppi.

Forseti. Þetta var um kjarapakka Samfylkingarinnar og efnahagsástandið sem við þurfum að bregðast við og við erum með breytingartillögur um í Samfylkingunni sem ég vona að verði samþykktar. En þá vil ég ræða um Samkeppniseftirlitið sem er afar mikilvægt að sé sterkt og virkt og sé ekki fjársvelt eins og nú virðist vera. Íslendingar voru 100 árum á eftir Bandaríkjamönnum að setja samkeppnislög. Í Bandaríkjunum var litið á það sem vandamál að í mikilvægum atvinnugreinum væri eitt fyrirtæki eða samsteypa fyrirtækja ráðandi á markaði. Þessu varð að bregðast við og samkeppnislögin náðu til þess að einokunin og fákeppnin yrði brotin á bak aftur. Í kjölfarið bötnuðu lífskjör og efnahagur Bandaríkjamanna til muna.

Það var ekki aðeins mikilvægi þess að markaðir væru skilvirkir og neytendur væru varðir fyrir fákeppni sem hvöttu Bandaríkjamenn áfram svo löngu á undan öðrum heldur ekki síður það að fákeppninni fylgir samþjöppun valds og áhrifa sem talin er ógna lýðræðinu. Það var í þessum anda sem Bandaríkjamenn beittu sér fyrir því eftir síðari heimsstyrjöldina að stórfyrirtækjum yrði skipt upp í Japan og Japanir tækju upp samkeppnislög. Svipað gerðist í Þýskalandi eftir stríð. Þetta lagði grunninn að endurreisn eftir síðari heimsstyrjöldina og mikilli efnahagslegri velgengni, bæði í Japan og Þýskalandi. Bandaríkjamenn voru sannfærðir um að ekki væri hægt að tryggja frið nema með lýðræði og öflugu samkeppniseftirliti og þetta tvennt héldist í hendur.

Við Íslendingar búum við fákeppni á flestum lykilmörkuðum. Við þekkjum áhrif og völd stórra fyrirtækja sem stýra nánast heilu byggðarlögunum. Sveitarstjórnir telja sig jafnvel verða að beygja sig undir stóru allsráðandi fyrirtækin sem oft eru jafnframt velgjörðarmenn byggðarlaga, sem styrkja íþróttafélög og byggingu íþróttamannvirkja svo algeng dæmi séu tekin.

Við þekkjum áhrifin sem stórfyrirtæki vilja sækja sér innan stjórnmálaflokka, m.a. með fjárframlögum. Nú um stundir er horft til yfirburðastöðu fyrirtækja líkt og Google, Facebook og Apple og umræða bæði stjórnmálamanna og fræðimanna æ algengari um að þau fyrirtæki geti með stöðu sinni ógnað lýðræðinu ásamt því að vera efnahagslífinu skaðleg.

Bandaríkin, sem áður voru í forystu í samkeppnismálum, hafa dregist aftur úr en ESB sótt í sig veðrið. Dæmi um þetta er heilbrigðisþjónusta í Bandaríkjunum sem er mikið dýrari en í Evrópu og nær einungis til þess hluta þjóðarinnar sem hefur efni á henni. Sérhagsmunaöfl hafa gætt þess að aðgengi að heilbrigðisþjónustunni sé háð efnahag Bandaríkjamanna.

Samkeppnislögin íslensku frá 1993 voru hluti af undirbúningi aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Í gegnum EES höfum við fengið neytendavernd sem við nutum ekki áður og myndum ekki njóta án aðildar að EES, er ég sannfærð um. Á næstunni munum við vonandi taka upp ESB-tilskipanir frá árinu 2014 um viðurlög við samkeppnisbrotum og um leiðir neytenda til að sækja rétt sinn þegar samkeppnislög hafa verið brotin. Vegna EES-samningsins geta íslensk stjórnvöld ekki að öllu leyti látið undan þrýstingi sérhagsmuna og veikt Samkeppniseftirlitið. Mörg dæmi eru til um ákvarðanir sem teknar voru fyrir EES-samninginn þar sem miklir almannahagsmunir voru í húfi en sérhagsmuna var frekar gætt. Sú pólitíska ákvörðun að gefa fiskveiðikvótann frekar en að leigja hann út gegn fullu gjaldi er dæmi um ákvörðun þar sem jafnræði og hagur almennings var fótumtroðinn. Sérhagsmunaöflin í sjávarútvegi og stjórnmálaflokkar sem fyrir þau vinna hafa ætíð haft betur við tilraunir til að vinda ofan af óréttlætinu.

Á síðasta kjörtímabili samþykktu stjórnarflokkarnir breytingar á samkeppnislögum til veikingar á eftirlitinu. Við í stjórnarandstöðunni komum þá í veg fyrir að lögin yrðu jafn skaðleg og ríkisstjórnin vildi. Í íslensku viðskiptalífi hefur átt sér stað gríðarleg samþjöppun valds og áhrifa. Rökin fyrir sterku samkeppniseftirliti varða ekki einungis skilvirkni markaða heldur er það einnig vörn fyrir lýðræðið. Lýðræðinu stendur augljós ógn af of stórum fyrirtækjum sem nýta styrk sinn gegn neytendum og smærri fyrirtækjum. Það er hart sótt að Samkeppniseftirlitinu þessa dagana. Almenningur þarf að standa vörð um sinn hag og standa með öflugu samkeppniseftirliti. Það verður að fjármagna eftirlitið svo það geti sinnt lögbundnum skyldum sínum. En svo virðist, forseti, sem ríkisstjórnin hafi í hyggju að veikja Samkeppniseftirlitið áfram. Hverra hagsmuni hún er þá að verja skal ég ekki segja en það eru sannarlega ekki hagsmunir almennings.

Að lokum, forseti, vil ég tala um Grindavík. Við fórum, nokkrir þingmenn, í gær til Grindavíkur og fengum þar leiðsögn björgunarsveitarmanna um þorpið. Það var skrýtið að keyra um þorpið, svo líflaust þorp sem fyrir þessar hamfarir iðaði af lífi og krafti. Við sáum skemmdirnar á eignum. Við sáum sprungur í götum og gangstéttum, við sáum eyðilegginguna en við sáum líka stór hverfi í bænum sem höfðu sloppið. Auðvitað á eftir að meta þetta allt saman en það var ekki annað hægt en að hugsa til fólksins, hvernig því hefur liðið þegar þessar hamfarir dundu yfir og kraftar jarðar höfðu þessi eyðileggingaráhrif á þorpið og bæinn.

Það er líklegt, eins og við höfum áður rætt hér í þessum sal, að við stöndum frammi fyrir stærsta samfélagslega verkefni sem þjóðin hefur tekist á við til þess að verja Grindavík og mikilvæg mannvirki þar í kring fyrir hugsanlegum frekari eldgosum. Við þurfum að búa okkur undir að það geti gerst. Það þarf auðvitað að bæta það tjón sem orðið hefur í Grindavík. Það er sem betur fer þverpólitísk samstaða um aðgerðir í þessum efnum, hvort sem þær eru efnahagslegar eða félagslegar, varða mannvirki, vinnumarkaðinn, fyrirtækin eða heimili Grindvíkinga.

Það er þannig, forseti, að verðmætin eru ekki aðeins í hlutum, fasteignum og fyrirtækjum heldur ekki síður í fólkinu sjálfu og menningunni í Grindavík og í andlegri og líkamlegri heilsu. Grindvíkingar þurfa að gæta að andlegri heilsu sinni og leita eftir aðstoð því að áfallið hlýtur að hafa verið ólýsanlegt þegar fólk horfir upp á krafta jarðar fara svona með eigur og heimili og ræturnar í Grindavík. Óvissan er verst. Við vitum ekki hvenær Grindvíkingar geta flutt aftur heim. Vonandi stoppar þetta núna og það gefst tóm til að laga það sem hægt er að laga og byggja upp það sem hefur eyðilagst og ekki síst að samfélagið verði áfram sterkt í Grindavík.

Það er þannig, forseti, að fólk hefur haft fjárhagsáhyggjur vegna þess að auðvitað eru lán á mörgum húsum í Grindavík. Bankarnir, allir þrír, hafa gefið eftir vexti og verðbætur í þrjá mánuði til þess að gefa Grindvíkingum skjól og létta af þeim óþarfafjárhagsáhyggjum. Það er frábært að það skuli hafa verið gert en eftir stendur fólkið sem tók lífeyrissjóðslán. Lífeyrissjóðirnir hafa ekki enn gefið svör um það hvort þeir treysti sér til að gefa eftir vexti og verðbætur. Það er undir 30 milljónum, það er undir tíu milljónum á mánuði þannig að það er undir 30 milljónum á þessum þremur mánuðum sem þeir þyrftu að gefa eftir í þessari stöðu. Við höfum lagt áherslu á það í efnahags- og viðskiptanefnd, sem bíður nú eftir minnisblaði frá Landssamtökum lífeyrissjóða sem von er á í desember, eftir því sem okkur er sagt, og höfum talað um það á fundum nefndarinnar, að það kæmi ekki til greina að skilja þetta fólk eftir. Það þarf að finna út úr því hvernig hægt er að koma til móts við þá sem tóku lán hjá lífeyrissjóðunum með sama hætti og bankarnir hafa komið til móts við þá sem tóku lán hjá bönkunum. Ég á erfitt með að átta mig á því hvort það er einhver lagalegur vafi á því hvort lífeyrissjóðirnir geta gefið eftir þessa upphæð þótt hún sé lág en í þeim samanburði sem afskriftir lána hafa verið hjá lífeyrissjóðunum þá finnst manni þetta ótrúlegt ef þessi lága upphæð á að standa í vegi fyrir því en við skulum sjá hvað verður. Við getum ekki skilið Grindvíkinga eftir með fjárhagsbagga vegna náttúruhamfara. Skaðinn verður alltaf einhver en við þurfum að létta af byrðum sem hægt er að létta af Grindvíkingum og þær byrðar þurfum við sem samfélag að bera með þeim.

Forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vona að þegar kemur að atkvæðagreiðslunni, sem væntanlega verður á morgun en einhvern tímann verður hún alla vega, muni hv. þingmenn líta til breytingartillagnanna frá okkur í Samfylkingunni vegna þess að þær eru allar til bóta fyrir heimilin í landinu sem þurfa á stuðningi að halda við þessar aðstæður.