131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[17:19]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er iðulega erfitt að botna í málflutningi hv. síðasta ræðumanns. Hann segir að svart sé hvítt og hvítt sé svart og maður fær engan botn í það sem hann er að tala um.

Ég hef sýnt fram á það með rökum að við erum ekki bara að tala um litla hækkun í samræmi við verðlag, heldur er verið að hækka gjaldið um 43% ef tekið er mið af því hvernig það var í upphafi, þegar það var lagt á 1998.

Af því hv. þingmaður er að spyrja um skattleysismörkin og persónuafsláttinn og hvernig hann hefur þróast og hækkanir á hvoru tveggja, þá liggur fyrir, og ég get sýnt hv. þingmanni það á blaði, að ef skattleysismörkin hefðu þróast í samræmi við neysluvísitölu þá væru þau ekki 72 þúsund í dag heldur 90 þúsund. Ef þau hefðu þróast í samræmi við launavísitölu, þá væru skattleysismörkin ekki 72 þúsund heldur 110 þúsund. Þetta eru nú bara staðreyndir málsins.

Hv. þingmaður kemst ekki fram hjá því frekar en aðrir stjórnarliðar að hér er daglega verið að fjalla um hundruð millj. kr. hækkanir í skattaálögum og gjaldtökum á fólk. Það er sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir nú.