135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[15:48]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka virðulegum forseta fyrir að veita mér orðið. Varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni um skýringu á því sem ég vísaði til í 82. gr. vátryggingarsamningalaganna þá er ekki verið að takmarka það við hvaða aðila upplýst samþykki eigi. Það gildir um þá aðila sem upplýsinganna er aflað hjá og það finnst mér skipta gríðarlega miklu máli, hv. þingmaður, að sé í gildi gagnvart öllum, sama hvort það eru læknar, aðstandendur eða aðrir, að ávallt liggi fyrir skriflegt upplýst samþykki. Upplýst samþykki er svo mikilvægt vegna þess að þá er þeim sem veita samþykki gerð fullnægjandi grein fyrir því hvaða þýðingu það getur haft að veita það samþykki. Með lagaákvæðinu eins og það er í frumvarpinu er samþykki kannski veitt án þess að fólk hafi hugmynd um fyrir hverju verið er að veita samþykki.