152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

almannatryggingar.

55. mál
[17:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er áhugavert mál sem við ræðum hér af því að af góðum ástæðum, en stundum af mjög skrýtnum ástæðum, er merkilega flókið að færa peninga á milli landa. Þegar lífeyrisþegi fær lífeyri hér á landi má maður spyrja sig: Er hann þá ekki að fá greitt hér á landi og þarf þá að sækja sér peninginn hvar sem hann er? Á móti er hægt að benda á að ef það er eitthvað flókið, eins og þetta frumvarp bendir á, af hverju þarf það að vera flókið?

Ég upplifði það einmitt þegar ég flutti frá Bandaríkjunum til Íslands. Það er í eina skiptið sem ég hef þurft að vesenast í að færa fjármuni á milli landa, þar sem safnast hafði upp smá launareikningur erlendis og maður kom heim og þurfti þá að flytja afganginn sem var nú ekkert voðalega mikið, eitthvað samt. Ég held á debetkorti tengt bankareikningnum í Bandaríkjunum og ég ætla að sjálfsögðu bara að tæma hann og það átti ekkert að vera voðalega flókið. En það kostaði alveg hlutfall af þeim pening sem ég ætlaði að taka út. Ég man ekki hvort það voru 2,5% eða eitthvað svoleiðis sem er bara fáránlegt. Hvaða máli skiptir hvort ég sé að taka út 100 dollara eða 200 dollara? Af hverju þarf greiðslan að vera hærri eftir því sem ég tek meira út af reikningnum mínum? Þetta er alveg fáránlegt. Ég fer þá í bankann og spyr gjaldkera: Hvernig er þetta eiginlega hægt? Þá er hægt að gera einhverja símgreiðslu og það er föst upphæð fyrir það. Þannig að ef ég ætla að flytja lága upphæð þá kostar það samt 100 dollara, eða hvað sem það var, en ef ég ætla að flytja 1.000 dollara þá er það líka bara 100 dollarar. Allt í lagi, það er há upphæð en það hljómar rökrétt af því að færslan sem slík kostar bara þetta, óháð því hversu mikið fjármagn er verið að færa símleiðis á milli landa. Já, það er mjög skrýtið.

Reikningurinn hjá mér var ekki settur upp þannig að ég gæti notað þá leið, því miður. Ég hefði þurft að fara í útibú og virkja að það væri hægt og alls konar passasemi er tengd því, enda eru rosalega margir sem fara illa með það hvernig fjármagn er flutt á milli landa, alls konar starfsemi í því sem við viljum helst ekki að sé endilega auðveld. En kannski ætti þetta í einhverjum tilfellum að vera aðgengilegra. Ódýrasta lausnin þegar allt kom til alls — stórfurðulegt, gjörsamlega stórfurðulegt — var að taka upp tékkheftið sem ég var með tengt reikningnum úti. Pappírinn, þeir nota hann enn þá mjög mikið úti í Bandaríkjunum. Þá skrifar maður tékka fyrir húsaleigunni og eitthvað svoleiðis. Þá skrifa ég tékka fyrir innstæðunni á reikningnum, læt bankann minn hér á Íslandi fá þann tékka, bankinn minn hér sendir hann til viðskiptabanka síns — sem er ekki minn banki í Bandaríkjunum heldur viðskiptabanki hans í Bandaríkjunum — sem tekur við henni. Það er bókstaflega verið að póstleggja og fljúga með ávísunina í hinn bankann sem fer síðan með hana í minn viðskiptabanka — bara „físískt“, nákvæmlega tékkann sem ég skrifaði — og fær þá innleystan peninginn sem hann sendir síðan aftur til viðskiptabankans míns hér á Íslandi. Þetta var ódýrasta leiðin. Gjörsamlega fáránlegt fyrirkomulag.

Maður velti því fyrir sér á þessari tölvuöld þegar maður hélt einmitt á debetkortinu í annarri hendinni og tékkheftinu í hinni: Af hverju er ódýrara fyrir mig að senda bréfsefni í flugpósti á milli landa? Það hefði þess vegna getað farið með skipi, ég veit það ekki. Það er takmarkaður tími settur á þessa millifærslu, upp á einn mánuð, þannig að ef hún klárast ekki á einum mánuði núllast hún út. Þetta tók einn mánuð, heilan mánuð, með póstsendingargjöldum og öllu og ég veit ekki hversu miklu veseni, mannlegri vinnu við að handfjatla ávísunina sem ég var að senda, miðað við að ég hefði getað stungið debetkortinu mínu í hraðbankann og fengið nákvæmlega sama pening fyrir. Ég hefði haldið að það væri ódýrara. Ég hefði haldið það.

Þetta er kannski innlegg í vandamálið sem við glímum við hérna. Við eigum íslenska greiðsluþjónustu núna — eitthvað skringilegt — og við erum með ýmiss konar annars konar greiðsluþjónustumöguleika, t.d. í rafmyntum og þess háttar, sem kosta brotabrot af því sem beinar peningasendingar milli banka kosta. Áhættan af því er náttúrlega sú að þú kannski kaupir rafmyntina hér á Íslandi og selur hana þá kannski í landinu þar sem þú tekur við. Það gerist yfirleitt nokkurn veginn á sama tíma þannig að þú ert ekkert að geyma neina peninga og það verður ekkert hrun á rafmyntinni á meðan. Færslugjöldin þarna eru miklu lægri. Það eru nefnilega til fleiri möguleikar en er boðið upp á. Að þurfa að grípa til ódýrustu millifærsluleiðarinnar, t.d. rafmyntarleiðar, er bara dálítið fáránlegt í nútímanum.

Við skulum samt hafa það bak við eyrað að það er verið að misnota rosalega mikið af peningaflutningadóti milli landa þar sem peningum er komið fyrir í alls konar skattaskjólum o.s.frv. En fyrir venjulegt fólk og upphæðirnar sem við erum að tala um hérna þá á þetta ekki að vera vandamál. Það er ekkert mál fyrir tölvukerfi að sjá þegar einhver aðili er að senda kannski fullt af smáum upphæðum til að reyna að fara undir radarinn eða eitthvað svoleiðis. Það safnast bara saman og vekur strax athygli. En þegar einhver einn aðili er að senda nokkra tugi þúsunda í hverjum mánuði er það ekki neitt sem neinn á að hafa áhyggjur af. Ég legg það inn í þessa umræðu að þetta á ekki að vera vandamál fyrir neinn, hvorki lífeyrisþegann né Tryggingastofnun af því að það á ekki að kosta svona mikið að senda peninga á milli landa og þeim mun síður ætti það að vera vandamál að breyta því á þann hátt að Tryggingastofnun eða ríkið taki þann kostnað bara einfaldlega á sig og finni út ódýrustu leiðina til að koma þessu á sinn stað — vonandi ekki með því að þurfa að senda ávísun.