154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:11]
Horfa

Valgerður Árnadóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir að koma inn á húsnæðismarkaðinn. Mér þykir mjög mikilvægt að leggja áherslu á að það eru ekki allir sem vilja komast inn á fasteignamarkaðinn. Það er einfaldlega eina leið venjulegra launþega til þess að búa við öryggi og viðráðanlegan kostnað við húsnæði. Það þarf auðvitað að leggja meira í að byggja upp óhagnaðardrifin leigufélög vegna þess að það er ofboðslega mikið, sérstaklega af ungu fólki í dag sem myndi gjarnan frekar geta valið um þessa evrópsku leið að leigja hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum og vera þá öruggt með húsnæði þar. En húsnæðismarkaðurinn, hvort sem þú ert í leiguhúsnæði eða átt fasteign á Íslandi, er bara eins og villta vestrið. Eins og hv. þingmaður kom inn á hefur húsnæðisverð hækkað alveg gífurlega en það hefur leiguverðið gert líka. Ef þú ræður ekki við hækkanir sem leigusalar geta sett á eins og þeim sýnist þarftu að finna þér annað húsnæði og flytja. Við sjáum að ótrúlega stór hluti þeirra sem koma hingað og eru að byggja upp nýtt húsnæði býr sjálfur í óviðunandi húsnæði með óviðunandi brunavörnum. Við erum ekki að bjóða þeim upp á það öryggi sem þau eiga skilið. Ég heyrði hv. þingmann einnig koma inn á það að takmarka jafnvel fjölda ferðamanna hér. Ég kom inn á það í minni ræðu að það væru kannski gæði ferðamannanna sem skiptu meira máli en fjöldi og ég myndi gjarnan vilja heyra hverjar hugmyndir Viðreisnar eru hvað það varðar; viljum við stöðugan vöxt í fjölda eða viljum við stýra þessu og þá hvernig?