140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það mál sem rekið er fyrir landsdómi sé byggt á meintum brotum á lögum um ráðherraábyrgð og ekki á pólitískum vangaveltum.

Ég minni á það að í lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, segir í 1. gr. með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis leiti sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Þá skal hún leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.“

Þetta stendur í lögunum. Frumvarp til þessara laga var flutt af forseta Alþingis og formönnum allra stjórnmálaflokka sem þá áttu sæti á Alþingi. Í 15. gr. þessara laga er einnig kveðið á um það að Alþingi kjósi sérstaka nefnd til þess að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar.

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé fyrst og fremst verið að fara yfir málið á lagalegum forsendum en ekki pólitískum. (Forseti hringir.) Það á að halda því í þeim farvegi. Það er fyrir dómstóli og það á að halda því þar.