148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að þetta verði, eins og hv. þingmaður nefndi, stofnun sem er eins og fé án hirðis. Það er alveg skýrt hvar þessi stofnun liggur í stjórnkerfinu samkvæmt forsetaúrskurði, en hins vegar hefur hún þá sérstöðu að þetta er samstarf á milli atvinnulífsins og hins opinbera. Það má alveg færa rök fyrir því og það er eitt af þeim verkefnum sem við leysum ekki hér að menn ættu í stærra samhenginu að hafa betri ramma þegar kemur að slíku samstarfi á milli atvinnulífsins og hins opinbera. Þar ættum við að líta til annarra landa um það hvernig því sé best fyrir komið. Hins vegar liggur alveg fyrir að hugmyndin var alltaf sú að þessi stofnun yrði byggð á einkaréttarlegum grunni. Það var aldrei hugmyndin að þetta yrði ríkisstofnun. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu þá leiðir hitt af sér að þau lög sem hér eru tilgreind eiga ekki við viðkomandi stofnun.

Það var farið mjög vel yfir þetta mál í þessum hópi. Ástæðan fyrir því að þetta hefur tekið þó þennan tíma sem það hefur gert er vegna þess að menn skoðuðu allar leiðir sem menn töldu færar innan þess ramma sem við þurfum og eigum að starfa eftir og niðurstaðan er þessi sjálfseignarstofnun. Hún gengur fyrst og fremst út á það að við erum að ná saman um heildarsýn um Ísland sem við ætlum að kynna á erlendum vettvangi sem allir þeir sem eru í útflutningi eiga að njóta góðs af með einum eða öðrum hætti. Ég veit ekki til þess að nein af þeim löndum sem við berum okkur saman við hafi slíkt innan ríkisstofnunar. Þau lög sem þarna eru tilgreind má færa full rök fyrir að eigi alls ekki við um stofnanir sem sinna slíkri starfsemi.