150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[22:56]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Ég held að í grunninn séum við hv. þingmaður mjög sammála um afstöðu okkar til fjölmiðla almennt. Ég deili öllum þeim áhyggjum sem farið var ágætlega yfir í upphafi máls þingmannsins. Ég ætla ekki að kafa djúpt ofan í málið og lengja umræðuna að óþörfu. Hins vegar kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar umræða um stuðning við einkarekna fjölmiðla ber á góma, eins og þessi umræða ber með sér, að stærstur hluta hennar fer í það sem einhverjir nefna fíl í stofu. Ég hef aldrei séð fíl í stofu og lít ekki á Ríkisútvarpið sem fíl í stofu. Þetta frumvarp er um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Ég las hv. þingmann þannig í hans ræðu að hann væri fylgjandi slíkum stuðningi en svo vildi hann skoða í framhaldi eitthvað til að jafna aðstöðumun og eitthvað slíkt sem við erum kannski ekki endilega sammála um.

Ég vil nýta tækifærið, sem ég geri alltaf þegar ég á umræðu við fólk sem er þessarar skoðunar þegar kemur að fjölmiðlum, til að spyrja þeirrar einföldu spurningar hvort hv. þingmaður telji, algjörlega óháð auglýsingum RÚV, að þörf sé á að styrkja einkarekna fjölmiðla. Ég ætla jafnvel að leyfa mér, hvort sem svarið er já eða nei, að biðja hv. þingmann að líta til Norðurlandanna. Hvernig stendur á því að á Norðurlöndunum telja löggjafarsamkundur þörf á að styrkja einkarekna fjölmiðla þó að ríkisrekinn fjölmiðill sé ekki á auglýsingamarkaði? Af hverju ætti staðan að vera öðruvísi hér? Ætti hún ekki jafnvel að vera þannig að það væri frekar þörf á stuðningi hér vegna þess hve við erum fá? Er ekki þörf á stuðningi til einkarekinna fjölmiðla hér eins og Norðurlöndunum, óháð stöðu RÚV á auglýsingamarkaði?