151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að víkja aðeins að því að nú er þriðji dagurinn að líða þar sem hefur verið ófært til Fjallabyggðar beggja vegna, Siglufjarðar megin og Ólafsfjarðarmúla megin. Byggðin er í rauninni lokuð akandi vegfarendum og ekki ljóst enn þá hvenær hægt verður að opna vegina. Það er auðvitað algerlega óásættanleg staða á árinu 2021 að svo skuli vera. Það hefur verið rætt oft og mörgum sinnum um að gera þurfi ný göng, ýmist Tröllaskaga megin eða til Fljóta, nú eða breikka Múlagöng eða annað slíkt. En ég held að þess sé of langt að bíða að það geti orðið að veruleika heldur þurfi að hugsa út fyrir boxið og skoða aðrar lausnir. Það eru t.d. einn til tveir staðir við Múlann sem hægt væri að setja einhvers konar vegskála eða eitthvað slíkt sem gætu hugsanlega leyst þetta af hólmi. Það gæti orðið til þess að vegurinn yrði enn sjaldnar ófær en hann er í dag. Ég tel að það sé afar mikilvægt, ekki síst í ljósi þeirra frétta sem við heyrum núna; snjóflóð falla í Siglufirði, skíðaskálinn horfinn eða a.m.k. farinn af stað.

Af þessu tilefni vil ég líka minna á að búið er að ákveða að gera næstu jarðgöng fyrir austan, Fjarðarheiðargöng, en miðað við ástandið sem íbúar þar búa við tel ég mikilvægt að við hugum að því hvort hægt væri að flýta þeim göngum enn frekar, t.d. með því að fara í útboð á þessu ári. Þau eru áætluð á næsta ári, en ég held að nú sem aldrei fyrr sé þörf á því að ýta við því máli og hefja framkvæmdir.