Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú þannig að mér finnst jákvætt að sem mest af þjónustu sé hjá sveitarfélögunum. Þetta er það stjórnsýslustig sem stendur almenningi næst. Þarna finnst mér í sjálfu sér ekkert athugavert við að málaflokkur fatlaðs fólks sé vistaður. En sveitarfélögin eru náttúrlega farin að kvarta undan þeirri stöðu sem þau eru komin í, ekki vegna þess að í prinsippinu vilji þau ekki sinna þessu heldur vegna þess að þeim eru ekki tryggðir fjármunirnir til þess. Alþingi setur sveitarfélögunum stífan ramma varðandi hvaða tekjuöflun þau geta farið í. Útsvar er skilgreint af okkur og við síðan ákveðum hvaða verkefnum þau eiga að sinna en einhvern veginn vantar alltaf upp á að fjármunir fylgi í samræmi við umfang verkefnanna. Þetta er svo undarlegt.

Ég talaði um áhrifamat frumvarpa í ræðunni áðan og það eru bara örfáir áhrifaþættir sem eru sérstaklega tilteknir í lögum að eigi að skoða. Það á samkvæmt lögum um opinber fjármál að leggja mat á fjárhagsleg áhrif frumvarpa áður en þau eru lögð fram af ríkisstjórn. Svo á samkvæmt sveitarstjórnarlögum að fara fram sérstakt mat á áhrifum frumvarpa á fjárhag sveitarfélaga. Í tilviki NPA-samninganna er orðið augljóst að ríkið hefur vanmetið áhrifin á sveitarfélögin um milljarða. Hvort það eigi að leiða til þess að ríkið taki málaflokkinn til sín aftur eða bara borgi einfaldlega reikninginn, mér finnst það ekkert skipta öllu máli endilega. Aðalatriðið er að þarna er hópur sem á rétt á þjónustu sem er ekki að fá hana bara vegna þess (Forseti hringir.) að fjármálaráðuneytið er haldið einhverri hreintrúarstefnu varðandi það að þessi (Forseti hringir.) málaflokkur megi ekki fara fram úr heimildum meðan fullt af öðrum mega það.