Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:40]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stökk upp úr stólnum þegar hv. þm. Eyjólfur Ármannsson nefndi upprunaábyrgðir því ég ætlaði einmitt að spyrja hann út í upprunaábyrgðir í seinna andsvari mínu. Ég sá eina óundirbúna fyrirspurn, ég sat nú ekki einu sinni á þingi þá, hv. þingmanns til hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um upprunaábyrgðir. Hann kemur með svolítið skemmtilega sýn á þessi mál og á upprunaábyrgðir í heild sinni. Ég er bara að pæla: Eru upprunaábyrgðir virkilega það mikilvægar fyrir ríkissjóð að við getum ekki hætt að leyfa sölu á þeim? Það sem fólk heyrir um upprunaábyrgðir er bara grænþvottur, en er þetta að ýta okkur framarlega í baráttunni gegn loftslagsvánni og gagnvart markmiðum okkar um að stuðla að hröðum orkuskiptum miðað við önnur lönd? Ég ætla líka að fá að taka undir með hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni, við erum ekki fremst í heimi og við verðum ekki fremst í heimi. Við eigum svo góða möguleika á því að vera fremst í heimi þegar kemur að hreinni orku, að öllu umhverfisvænu, við erum með góða orku, við erum t.d. ekki í jafn mikilli orkukrísu og hin löndin í Evrópu. En upprunaábyrgðirnar, ég fer aftur þangað: Er þetta svona mikilvægt? Er þetta algerlega ómissandi? Getum við ekki einfaldlega hætt að selja þær?