131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[10:37]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Á sama tíma og rétt er að hvetja til varkárni í sambandi við skuldsetningu, hvort sem það varðar heimili eða fyrirtæki, er ekki rétt að halda því fram að miklar erlendar skuldir séu merki um lausatök í hagstjórn. Það sem skiptir að sjálfsögðu höfuðmáli er hvers eðlis skuldirnar eru. Eru það opinberir aðilar sem skulda eða eru það einkaaðilar? Það liggur t.d. alveg ljóst fyrir að skuldsetning ríkisins hefur farið minnkandi. Skuldir ríkisins voru 35% af landsframleiðslu árið 1995 en nú stefnir í það í lok næsta árs að skuldir ríkisins verði 17%.

Það er heldur ekki rétt að fjalla um þetta mál þannig að talað sé um skuldasöfnun eins og einhvert meiri háttar efnahagslegt áfall sem stjórnvöld verði að takast á við. Við verðum að líta til þess í hverju verið er að fjárfesta. Þessar skuldir stafa m.a. af auknum fjárfestingum, arðbærum fjárfestingum. Við getum nefnt fyrirtæki eins og Alcoa, Norðurál og Alcan.

Ef við lítum til fyrirtækjanna að öðru leyti hafa t.d. skuldir sjávarútvegs og ýmissa iðnfyrirtækja staðið í stað á meðan skuldir ýmissa hátæknifyrirtækja og fjármálafyrirtækja hafa aukist verulega, bæði innan lands og á erlendum mörkuðum. Það er ekki óeðlilegt að þetta gerist vegna þess að þetta er sá hluti hagkerfisins sem eykst hraðast. Útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði hefur gengið vonum framar og vakið mikla athygli erlendis. Þetta er mjög jákvæð þróun og það er ánægjulegt að þær skipulagsbreytingar sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir í íslensku efnahagslífi hafi stuðlað að uppbyggingu öflugra og framsækinna fyrirtækja, bæði innan lands og erlendis.

Það er líka nauðsynlegt að hafa í huga að á bak við skuldir fyrirtækjanna standa mjög miklar eignir. Þetta vill oft gleymast í umræðunni.

Hvað varðar skuldir heimilanna er rétt að hafa í huga að hér búa hlutfallslega miklu fleiri í eigin húsnæði en víðast hvar annars staðar í heiminum. Þetta stafar líka af því að aldurssamsetning þjóðarinnar er önnur þar sem hér er hlutfallslega meira um ungt fólk. Það er ekki óeðlilegt að hlutfall skulda sé hærra hér á landi en hjá þeim þjóðum sem eldri eru. Þetta gildir að sjálfsögðu líka hjá fyrirtækjunum þar sem mjög miklar eignir standa á móti skuldunum.

Það þarf að skoða heildarmyndina hvað varðar eignir og skuldir. Hér skiptir gríðarlegu máli að við búum við öflugt lífeyrissjóðskerfi. Heimilin hafa þannig lagt til hliðar mjög mikið á undanförnum árum og áratugum og menn horfa öfundaraugum til góðrar stöðu lífeyrismála hér á landi, m.a. í Noregi þar sem Norðmenn hafa lagt hluta af sínum olíuauð upp á tugmilljarða til að safna fyrir lífeyrisskuldbindingum. Það mun þó ekki duga þeim. Það er hins vegar ljóst að lækkun verðbólgunnar og hagstjórn á undanförnum árum hefur dregið úr óvissu hér á landi, bæði að því er varðar rekstur fyrirtækja og áætlanagerð heimilanna. Fyrirtæki fara fremur út í meiri skuldsetningu á heimili vegna þess að þau eru betur undir það búin að skuldsetja sig til framtíðar.

Ég sagði áðan að hins vegar væri rétt að stíga til jarðar af varúð og hvetja til þess að fólk skuldsetji sig ekki mikið. Það hefur verið jákvætt að þátttaka bankanna á íbúðalánamarkaðnum hefur aukist. Það er hins vegar mikilvægt að bankarnir hugi vel að áhættustöðu sinni að því er varðar þessa nýju útlánastarfsemi, jafnframt um fjármögnun lánanna og arðsemi þeirrar lánastarfsemi. Fjármálaeftirlitið fylgist með þessu eins og kom fram í ræðu forstjóra þess fyrir nokkru síðan sem er mjög mikilvægt. Það er líka mjög mikilvægt fyrir einstaklinga að huga að heildardæminu, hugsa ekki um of um lága vexti, heldur horfa á greiðslubyrðina og fara ekki út í lántökur vegna einkaneyslu.