137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

innstæðutryggingar.

[10:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að gefnar voru pólitískar yfirlýsingar um að séð yrði til þess að allar innstæður bæði einstaklinga og fyrirtækja sem falla undir innlánstryggingakerfið eða flokkunina, sem sagt innstæður í þeim skilningi sem innlánstryggingarnar taka til, yrðu að fullu varðar. Við þær hefur verið staðið. Aðgerðir vetrarins og vorsins hafa falið það í sér. Sömuleiðis má segja að sú aðgerð að koma nú á fót fullfjármögnuðum og sterkum nýjum bönkum þar sem þessar innstæður eru í skjóli séu liður í því að tryggja þetta. Sama gerðist í vetur þegar sparisjóðir komust í erfiðleika, í öllum tilvikum var innstæðum borgið með því að færa þær til annarra fjármálastofnana. Yfirlýsingar fyrri og þessarar ríkisstjórnar um að við þetta yrði staðið eru í fullu gildi þangað til annað er boðað.

Það er hins vegar mikilvægt að menn hafi það í huga að þetta er hluti af tímabundnum og sérstökum aðstæðum og fyrr eða síðar munu auðvitað þessir hlutir koma til endurskoðunar og færast yfir í það framtíðarfyrirkomulag sem verður um innstæðutryggingar og fjármálakerfið í heild. Hvorki á Íslandi né annars staðar er held ég reiknað með því að tímabundnar og sérstakar aðgerðir af þessu tagi standi um aldur og ævi. Þar á meðal munu til að mynda neyðarlögin koma til endurskoðunar enda eru endurskoðunarákvæði í þeim sjálfum þannig að ég held að það sé alveg ljóst að þessir hlutir verði síðan skoðaðir í framhaldinu þegar við færum okkur smátt og smátt yfir í það sem hægt er að kalla venjubundið ástand en það er von okkar allra að við komumst út úr þessum sérstöku neyðarlögum og neyðaraðstæðum sem við höfum búið við. En bara til að það sé algerlega á hreinu, yfirlýsingar bæði fyrri og núverandi ríkisstjórnar í þessum efnum eru í fullu gildi þangað til eitthvað annað er boðað.