140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:18]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef bara enga skoðun og túlkun á því hvernig einstök flokksfélög álykta um þetta mál út eða suður. Hins vegar liggur ljóst fyrir, eins og ég nefndi áðan, að hér komu allir flokkar að undanskildum Hreyfingunni og Sjálfstæðisflokknum með ólíka afstöðu (Gripið fram í: Var það í …?) í afgreiðslu þingsins á sínum tíma. (GBS: Og VG.) Og Vinstri grænir, já. (Gripið fram í: Það var bara Samfylkingin …) Það að Samfylkingin væri hér með ólíkar skoðanir lýsir því best að þar höfðu menn tekið málið til yfirvegunar og íhugunar, hver einstakur þingmaður, en menn komu ekki með einhverja flokkslínu í þeim efnum.