140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru alveg ótrúleg skilaboð frá hv. þm. Lúðvíki Geirssyni, að þingið geti ekki fengið að tala um þingsályktunartillöguna sem hér um ræðir og fjalla um hana efnislega, faglega, fara yfir þær ástæður sem meðal annars hv. þm. Atli Gíslason hefur komið inn á og talað um raunverulega eðlisbreytingu sem hafi átt sér stað á málinu fyrir utan þau lögfræðilegu rök sem til að mynda Stefán Már Stefánsson hefur bent á í sínum skrifum og Ragnar Hall með dómi Hæstaréttar frá árinu 2009. Það eru mörg lagaleg rök sem knýja á um að þessi tillaga verði tekin til efnislegrar umræðu. Ég spyr hv. þingmann: Telur hann sig rækja hlutverk sitt sem ákæruvald — því að hann er hluti af ákæruvaldinu — alvarlega með þessu fyrirkomulagi og framkomu sem hann sýndi í ræðu sinni áðan?