141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:45]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013 við 2 umr. Mig langar að fara í þessari ræðu aðeins yfir fyrirliggjandi breytingartillögur og ætla að byrja á að fara yfir þær sem tilheyra svokallaðri 6. gr. sem er heimildargreinin og alla þá nýju liði sem koma inn til viðbótar við það sem fyrir er í heimildum í fjárlagafrumvarpinu. Ég tel að það væri þarft að fá útskýringar á því hvers vegna þessar breytingar eru lagðar til og hvað þær merkja í raun.

Hér er grein um sölu lóða og jarða og bætt er við 6. gr. nýjum lið sem er númer 4.11. Fyrir er liður 4.10 en inn kemur þessi nýi liður, 4.11, og í heimildarákvæðinu stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um sölu á hluta af eða öllu því landi ríkisins við Reykjavíkurflugvöll sem er fyrir utan flugvallargirðingu.“

Maður veltir fyrir sér hvar og hvenær þessi ákvörðun hafi verið tekin af hálfu framkvæmdarvaldsins. Þetta kemur fram sem breytingartillaga meiri hluta fjárlaganefndar. Hvers vegna þetta er ákveðið, og hvar, hefur ekki verið rætt í fjárlaganefnd og ekki heldur almennt í þinginu. Þó er þetta svæði oft til umræðu, einkum og sér í lagi vegna þess að hvorki þingmenn né borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar eru sammála um hvort flugvöllurinn eigi að fara eða vera. Þó að hér standi „fyrir utan flugvallargirðingu“ hlýtur það að kalla á umræðu við framkvæmdarvaldið hvers vegna þessari breytingartillögu er komið inn á milli 2. og 3. umr. Hvaða umræða hefur farið fram um þetta tiltekna svæði frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram 11. september og þar til það er tekið til 2. umr.?

Svo er hér liður númer 4.16. Þar stendur:

„Að selja land ríkisins á Keldum, á Keldnaholti og við Úlfarsá.“

Maður spyr sig líka: Hvar, af hverjum og hvenær fór fram þessi umræða á milli þess að fjárlagafrumvarpið var lagt fram og 2. umr.? Mér vitanlega hefur það ekki verið rætt hvers vegna ríkið ákveður að setja inn þá tillögu um að selja land ríkisins á Keldum, á Keldnaholti og við Úlfarsá.

Ég dreg ekki í efa að ábúandinn á jörðinni sé til þess fær en það kann að vera misskilningur og verður þá væntanlega rætt síðar. Í 4.15 stendur:

„Að heimila Jarðasjóði að selja ábúanda ríkisjarðarinnar Áss í Mýrdal 9,8 ha lóð sem nefnd er Brekkur 2.“

Ég hefði haldið, en það kann að vera misskilningur, að ríkisjarðir ætti að auglýsa. Það kann að vera að svo hafi ekki verið gert og eigi ekki að gera. Sömuleiðis var bætt inn á milli 1. og 2. umr. heimild til að selja ríkisjörðina Hlíðarberg í Hornafirði, Myrká í Hörgársveit og selja eigendum jarða á Skarðstorfu í Rangárþingi ytra land í eigu ríkisins á torfunni.

Ýmislegt kemur hér inn á milli 1. og 2. umr. og umræður um þessa þætti hljóta einhvers staðar að hafa átt sér stað. Þær eru mér í það minnsta ekki ljósar og ég held að þær séu það fæstum þingmönnum.

Sömuleiðis er inni liður við 6. gr. sem heitir 7.9, felur í sér ýmsar heimildir sem þegar eru í frumvarpinu og eru á bls. 11. Þar er 7.8, „Að ganga til samninga við Bláskógabyggð um afnot gamla héraðskólans á Laugarvatni“.

Nr. 7.9 í breytingartillögunum er:

„Að veita 500 millj. kr. stofnframlag til stofnunar græns fjárfestingarsjóðs.“

Þegar ætlunin er að leggja stofnframlag til sjóðs, mun þá ríkið halda áfram að greiða inn í þann sjóð, til hvers á hann að vera o.s.frv.? Ég tel að þetta hafi ekki verið rætt. Mér er að minnsta kosti ekki ljóst af hverju þessir liðir allir koma hingað inn. Það kann að vera að ég hafi ekki tekið nægjanlega vel eftir í fjárlaganefnd en ég held hins vegar, virðulegur forseti, að hugmyndir um að selja Keldnaholtið eða Reykjavíkurflugvöll hafi almennt ekki verið ræddar í fjárlaganefnd. Það kemur þá væntanlega fram hjá hv. formanni fjárlaganefndar sem hér kinkar kolli. (Gripið fram í: Allt rétt.)

Hér er líka breytingartillaga sem ég óska að hv. þm. Þór Saari segi mér hvernig hann hyggist fara með. Hann hefur sagt að skuldastaða ríkissjóðs sé óbærileg. Hann hefur lagt fram breytingartillögu um vaxtagjöld ríkisins þar sem hann þau eru minnkuð um 8,8 milljarða. Þau færu úr 88 milljörðum niður í 79.287 milljónir. Og hvernig? Er það með því að segja upp gildandi lánasamningi og krefja þá sem hafa lánað okkur um betri greiðslukjör? Hv. þingmaður Hreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir, talaði í morgun um að umræðan um fjárlögin væri komin út fyrir allt velsæmi þannig að það væri fróðlegt að heyra svör.

Í dag hefur íslenska kvennalandsliðið í handbolta keppni á Evrópumótinu í Serbíu og þess vegna langar mig að gera að umtalsefni liði um ýmis íþróttamál og ýmsar listir og velta því upp af hverju fjárframlögum í þetta tvennt er svo misskipt. Hér eru ekki Þjóðleikhúsið og Harpa inni heldur er þetta almennt greitt úr ríkissjóði. Ég held að ég fari með rétt mál. Viðbótin er upp á 282 milljónir og samanlagt eru þetta 1.233,3 milljónir en við setjum í ýmis íþróttamál innan við 500 milljónir. Íþróttamálin tengjast að stærstum hluta íþróttaiðkun barna og unglinga. Það hefur og á að hafa í för með sér forvarnastarf sem okkur verður gjarnan tíðrætt um. Áherslan í gegnum tíðina er ekkert nýrri nú en menn hafa stundum rætt um að við ættum kannski oftar en ekki að ræða hvað liggur að baki fjárlögum og af hverju við erum að setja alla þessa fjármuni í ýmsar greinar en við gætum líka rætt aðra grundvallarspurningu. Hér setjum við í Íslenska dansflokkinn 135 milljónir og í Þjóðleikhúsið 995 milljónir en þar eru sértekjur svo greiddar eru úr ríkissjóði 715 milljónir. Ég er ekki að segja að við eigum ekki að leggja fé til lista en mér finnst að við ættum stundum að velta fyrir okkur varðandi skiptingu fjár af hverju við leggjum áhersluna eins og við gerum.

Ég er líka hugsi yfir öðru. Ég starfaði um tíma sem formaður Æskulýðssjóðs sem er og var hugsaður þannig að í hann gætu sótt samtök um einstaka sérvalin verkefni hverju sinni. Nú hefur verið tekin sú ákvörðun að taka úr Æskulýðssjóði til að setja í rekstur hjá KFUM og KFUK. Ekki ætla ég að lasta það að KFUM og KFUK fái 5 milljónir til að reka Vatnaskóg frekar en að ég hefði kosið samhliða að skátarnir hefðu fengið fjármuni til að reka Úlfljótsvatn. En af hverju er verið að taka þessa peninga úr Æskulýðssjóði og færa yfir í rekstur? Það er í grundvallaratriðum gegn lögum um Æskulýðssjóð.

Menn hafa sagt að það væri óþarft að ræða fjárlögin í þeirri mynd sem við erum að gera. Margir hafa talað um að ræður okkar væru innihaldsrýrar og haft á því margar og miklar skoðanir.

Mér finnst ástæða til að nefna að í breytingartillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar er liður sem heitir 04.190 Ýmis verkefni og þar undir er 1.17 Veiðigjaldsnefnd. Til hennar eru lagðar 30 millj. kr. Mig langar að spyrja hv. formann fjárlaganefndar: Eru þessar 30 millj. kr. komnar til að vera fyrir starfsemi veiðigjaldsnefndar á sama hátt og 40 millj. kr. sem veittar eru til Fiskistofu til að hægt sé að reikna út og sýna fram á hvert veiðileyfagjaldið á að vera? Þar eru komnar til að vera 40 millj. kr. þannig að ég spyr hv. formann fjárlaganefndar sem hér er í salnum og situr hér drjúgt, virðulegi forseti, þó að margur annar fjárlaganefndarmaðurinn úr meiri hlutanum geri það ekki, að þessu. Hugsanlega fór þetta líka fram hjá mér í fjárlaganefnd en ég tel svo ekki vera.

Það er ýmislegt sem maður getur og horft til samhliða þessum heimildum 6. gr., öllum þessum viðbótum. Mér finnst sumt sérkennilegt í þessum heimildum og fannst það strax við framlagningu frumvarpsins. Við höfum reyndar rætt það að ef kaupa á, eins og kemur fram og hefur komið fram í fjárlagafrumvarpi áður fyrr, hverasvæði Geysis í Haukadal sem hlyti þá að kalla á stórar fjárhæðir úr ríkissjóði er það verkefni sem þingið stendur frammi fyrir, væntanlega til að synja eða samþykkja.

Ég sagði í minni fyrri ræðu að mér þætti sem menn væru að velta fyrir sér að hverfa að hluta til frá því sem lagt var upp með þegar við breyttum þeim safnliðum sem við erum hér að fjalla um, eins og þeir koma inn í breytingartillögunum. Margir voru sammála þeirri hugsun að færa þá fjármuni sem lágu í safnliðunum til menningarsamninga eða annarra samninga úti í landshlutunum og að fólk á heimaslóð mundi síðan úthluta í verkefnin. Í þessum breytingartillögum er meðal annars rætt um að veita að mig minnir 15 millj. kr. í sérstakt safn á Djúpavogi, safn sem tengist Ríkarði Jónssyni myndskera, en það er fjárlaganefnd sem ákveður að setja þær breytingar inn. Það er dæmi sem ég tel að hefði frekar átt heima undir samningum landshlutanna og það væri þá landshlutanna, í þessu tilviki Austurlands, að taka ákvörðun um hvort leggja ætti í Ríkarðssafn á Djúpavogi en ekki meiri hluti fjárlaganefndar. Mér sýnist að við séum þegar að fara frá því sem við lögðum upp með um safnliðina.

Í grunninn hækka þessi fjárlög skuldir ríkissjóðs. Við hækkum hér skatta og vörugjöld. Það skilar sér í hækkun húsnæðislána til hins almenna borgara. Það er það sem þessi fjárlög ganga út á. Úr því að hæstv. atvinnuvegaráðherra segir hér í ræðustól að þetta séu bestu fjárlög er einsýnt að hann skilur orðið „bestu“ öðruvísi en ég.