141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um það. Ég veit að við erum sammála um að sú stefna og sú forgangsröðun sem hefur birst okkur í fjárlagafrumvarpi undanfarinna ára gagnvart heilbrigðisstofnunum, ekki síst heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, stefnir öll í átt að þeirri byggðastefnu sem verið hefur ríkjandi í 150 ár, þ.e. að færa allar stofnanir til Reykjavíkur og byggja höfuðborgina upp. Okkur hefur tekist mjög myndarlega, kannski betur en nokkurri annarri þjóð, að framfylgja þeirri byggðastefnu. En skoðun mín og skoðun okkar framsóknarmanna — ég veit að hv. þingmaður er sammála þeirri stefnumörkun og fleiri þingmenn — er að nú sé kominn tími á aðra byggðastefnu og aðra forgangsröðun. Bygging Hólmsheiðarfangelsis getur verið hluti af þessari sömu 150 ára byggðastefnu og fleira í þeim dúr. Af þeirri braut verður að snúa en núverandi ríkisstjórn sýnir það í verki (Forseti hringir.) að hún er enn á sömu röngu forgangsröðunarbrautinni.