145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjárhagsvandi Reykjanesbæjar.

[11:05]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hefði nú haldið að fyrrverandi fjármálaráðherra þekkti vel þann vanda sem sveitarfélög víða um land hafa þurft að glíma við fjárhagslega á undanförnum árum og mörg þeirra hafa gert það með talsverðum árangri. Ég nefni sem dæmi Bolungarvík sem var mjög illa statt sveitarfélag en hefur náð að rétta furðuvel úr kútnum. Hvað varðar Reykjanesbæ ítreka ég það sem ég benti á áðan að við sjáum nú hversu mikil tækifæri blasa við þeim bæ, ekki hvað síst vegna miklu betra efnahagsástands og miklu betri horfa í efnahagslífi landsins. Það eru miklu betri horfur núna en þegar hv. þingmaður var fjármálaráðherra og sá þó ekki ástæðu til að ríkið gripi inn í með einhverjum hætti. En hv. þingmaður gleymdi alveg að útskýra með hvaða hætti ríkið ætti að grípa inn í, hafnaði því ekki einu sinni að fjármálaráðherra eða forsætisráðherra ættu að fara að hlutast til um lánaskilmála. Ég spurði sérstaklega hvort það væri það hv. þingmaður ætti við. Því var ekki svarað.

Það er þó ljóst að tækifærin eru til staðar fyrir sveitarfélagið og ekki hvað síst vegna þess að tekist hefur að laga efnahag landsins.