150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[23:00]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ekki verður horft til stuðnings við fjölmiðla á Íslandi án þess að líta til stöðu RÚV, sagði hv. þingmaður. Jú, við gerðum það nú t.d. þegar við skrifuðum stjórnarsáttmálann sem ég og hv. þingmaður samþykktum báðir. Þá horfðum við til stuðnings til einkarekinna fjölmiðla sem við sammæltumst um að koma á án þess að líta til stöðu RÚV — sem er ekki að finna í umræddum stjórnarsáttmála. Ég á nefnilega dálítið erfitt með að sjá hvernig hægt er að draga aðra ályktun af stöðunni í öllum löndum í kringum okkur. Við nefnum Norðurlöndin því að okkur er gjarnt að líta þangað, lík samfélög og allt það. En þetta er bara miklu víðar. Einkareknir fjölmiðlar eiga alls staðar í kröggum. Það skiptir ekki máli hvort til hliðar er risastórt ríkisútvarp með 50% af auglýsingamarkaði eða hvað það er, 20%, ég man ekki töluna sem hv. þingmaður talaði um. Það skiptir engu máli. Samt eiga einkareknir fjölmiðlar í bobba. Er ekki ályktunin sem á að draga af því sú að fjölmiðlarnir sjálfir, fjölmiðlareksturinn sjálfur, sé það erfiður að það þurfi að styðja hann? Eða á maður að taka breytuna RÚV, sem er bara á einum stað, og láta hana gilda bara hér? Ég held ekki. Ég er náttúrlega ekki vísindamaður en ég held ekki.

Það kemur fram í ágætri greinargerð með þessu frumvarpi sem fer mjög vel yfir stuðning, sérstaklega á Norðurlöndunum, hvað er verið að gera þar. Þar er verið að huga að því að stíga enn frekari skref. Hvernig á að bregðast við því sem stjórnvöld líta á sem lýðræðisógn? Með því að styðja einkarekna fjölmiðla enn frekar, alveg þrátt fyrir og óháð því að ríkisfjölmiðlarnir þar séu ekki á auglýsingamarkaði. Þess vegna skil ég ekki að það sé hægt að draga þá ályktun að þetta snúist allt um ríkisfjölmiðilinn. Þegar staðan er eins annars staðar, óháð ríkisfjölmiðli þeirra landa, (Forseti hringir.) þá finnst mér verið að draga rangan lærdóm af stöðunni í öðrum löndum.