Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir svarið. Mér finnst þetta áhugavert svið. Á bls. 46 í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár segir, með leyfi forseta:

„35 Alþjóðleg þróunarsamvinna. 35.10 Þróunarsamvinna.

Lagt er til að veita 1.500 m.kr. til aðstoðar Úkraínu með áherslu á mannúðar- og efnahagsaðstoð. Aðstoðin er til viðbótar framlögum Íslands til annarrar alþjóðlegrar þróunarsamvinnu eins og þau eru lögð fram í frumvarpinu. Rétt er að vekja athygli á því að mannúðar- og efnahagsstuðningur Íslands við Úkraínu hefur hingað til verið fjármagnaður af þróunarsamvinnufé á kostnað framlaga til annarra brýnna alþjóðlegra verkefna. Gert er ráð fyrir að framlaginu verði að mestu beint í gegnum í stofnanir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankann og annað fjölþjóðasamstarf í samræmi við óskir og þarfir úkraínskra stjórnvalda.“

Ég get ekki séð að mannúðar- og efnahagsaðstoð eigi heima undir þróunarsamvinnu. Ég get ekki séð það. Mannúðar- og efnahagsaðstoð við Úkraínu er ekki þróunarsamvinna. Það er mannúðar- og efnahagsaðstoð út af stríðinu. Þetta kemur fram í greinargerðinni:

„Rétt er að vekja athygli á því að mannúðar- og efnahagsstuðningur Íslands við Úkraínu hefur hingað til verið fjármagnaður af þróunarsamvinnufé á kostnað framlaga til annarra brýnna alþjóðlegra verkefna.“

Þetta finnst mér ekki nógu gott. Það er stríð í Evrópu og auðvitað þurfa íslensk stjórnvöld og íslenskt samfélag að taka þátt í þeim stuðningi við úkraínsku þjóðina. Þetta er eitt stærsta ríki Evrópu og hefur verið að þreifa fyrir sér með lýðræðisumbætur og (Forseti hringir.) það að við höfum ekki getað séð okkur fært að hafa þessa mannúðaraðstoð með réttum hætti og draga ekki úr annarri þróunarsamvinnu finnst mér ekki réttlætanlegt.