154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:59]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þessi breytingartillaga gengur út á að hækka fjármagnstekjuskattsprósentuna upp í 25%. Fjármálaráðuneytið hefur gert útreikning á þessari hækkun og núverandi frítekjumörk sýna að þetta myndi fyrst og fremst hafa áhrif á efstu tíundina í landinu. Mig langar til að veita ykkur tölfræði í þessu samhengi. Á yfirstandandi ári voru 75 milljarðar kr. greiddir í fyrirframgreiddan arf á árinu. Fjármálaráðuneytið hefur lýst því að að öllum líkindum sé þetta vegna þess að húsnæðisverð hefur hækkað það mikið að fólk er í auknum mæli farið að greiða út arfinn fyrir fram til að hjálpa börnunum sínum. Tveir þriðju af þessum arfi koma frá efstu tíundinni í landinu. Hverra manna þú ert á Íslandi skiptir svo sannarlega máli. Ég bið ykkur að íhuga við þessa atkvæðagreiðslu hvort ykkur finnst raunverulega ósanngjarnt að við hækkum fjármagnstekjuskatts sem snertir aðeins efstu tíundina í landinu.