131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[17:16]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er stórt og mikið mál tekið til meðferðar í 1. umr. um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Vonandi verður það til þess að frekar þróist í átt til heilbrigðrar nýtingar og öfgalausrar á auðlindum landsins og að umræður á báða bóga, öfgakenndar á báða bóga oft og tíðum, fari í annan farveg.

Ég ætla ekki að fara yfir mörg efnisatriði málsins heldur gera helst að umræðuefni það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson og fleiri hafa komið inn á, sem er eitt af meginatriðum þessa frumvarps að mínu mati og kemur fram í 11. gr. þess, sem ber yfirskriftina Málsmeðferð, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Rannsóknarleyfi samkvæmt lögum þessum skal veitt á grundvelli umsóknar sem metin skal á hlutlægan og gagnsæjan hátt.

Við veitingu rannsóknarleyfis skal einkum taka mið af því hvernig framlögð rannsóknaráætlun getur náð settu markmiði um að ná sem mestum og bestum upplýsingum um stærð og eðli auðlindarinnar á sem hagkvæmastan hátt. Telji Orkustofnun að umsókn um rannsóknarleyfi uppfylli ekki þessar kröfur getur hún synjað um rannsóknarleyfi eða sett sérstök skilyrði í rannsóknarleyfi af þessu tilefni.

Ef tvær eða fleiri umsóknir berast, sem Orkustofnun telur jafngóðar, skal elsta umsóknin ganga fyrir.“

Þetta er afleitt ákvæði að mínu mati, virðulegi forseti, og fjarri lagi að fylgja til að mynda niðurstöðum auðlindanefndar frá því um árið og er að mínu mati fullkomlega andstætt þeim sjónarmiðum sem koma fram í niðurstöðum þeirrar ágætu og þverpólitísku nefndar. Ákvæðið er að mínu mati til þess fallið að vekja áfram deilur um nýtingarrétt og gjaldtöku o.s.frv. á takmörkuðum gæðum okkar Íslendinga sem flokkast undir auðlindir og ávísun á það að upp rísi deilur og ósætti eins og kvótasetningin og framsalsheimildin á kvóta í sjávarútvegi ól af sér og fjarri því að sjái fyrir endann á því með öllum þeim afleiðingum og byggðahruni sem kvótakerfið í sjávarútvegi hefur haft í för með sér. Vonandi er að þessi grein, þessi málsmeðferð, taki stakkaskiptum í meðförum iðnaðarnefndar og hún mun væntanlega vekja upp miklar umræður um þetta því það sem er í raun og veru lagt til þarna er að handvali og geðþótta sé beitt til að velja þá sem nýta mega eða rannsaka auðlindirnar. Það er algjörlega óásættanlegt að mínu mati. Og sú umræða sem var í þingsölum á dögunum, um frumvarp hæstv. samgönguráðherra um þriðju kynslóð farsíma, hin svokallaða fegurðarsamkeppni eða handval á þeim sem senda inn umsóknir er algjörlega óásættanlegt að mínu mati, virðulegi forseti. Það á að ganga þannig fram að í öllum meginatriðum sé nýting og nýtingarréttur á auðlindum settur fram líkt og auðlindanefnd lagði til um árið og hefur verið verið ofarlega í umræðu margra á síðustu árum, sem er að auðlindanýtingin og rétturinn á henni fari eftir tilboðum í auðlindina, sá fái sem hæst býður og að uppfyllt séu að sjálfsögðu ákveðin skilyrði. Til að jafnræðis sé gætt í því hverjir eru valdir til þess að nýta auðlindir okkar sem þetta stóra og mikla mál tekur yfir, þá er það algjört meginmál að mínu mati hvernig gengið er frá því hverjir geti fengið auðlindirnar til nýtingar og hverjir séu valdir, af því að sú geðþóttaleið sem hér er lögð til er algjörlega óásættanleg að mínu mati og elur af sér tortryggni og að menn efist um heilbrigði niðurstöðu þess hver fær að nýta hverju sinni og fjarri því að þarna sé fylgt leikreglum um gagnsæi o.s.frv.

Þarna á eðlileg verðmyndun og uppboð að ráða þar sem allir eru jafnir í að bjóða í auðlindina og falla að mínu mati önnur markmið þessa ágæta máls í skuggann ef þetta nær ekki fram að ganga, af því að markmið málsins eru að flestu leyti mjög góð þó svo að hér sé fjöldi vafaatriða sem menn gera ágreining um eins og fram hefur komið í þeim nokkuð ítarlegu umræðum sem átt hafa sér stað í dag og var komið inn á fjölmörg atriði málsins sem sjálfsagt munu taka heilmiklum breytingum í meðförum nefndarinnar og á milli 1. og 2. umr. En ég held að menn verði að staldra sérstaklega við það hvernig þessum málum er fyrir komið við veitingu rannsóknarleyfa og nýtingarleyfa, og sérstaklega þykir mér undarleg framsetningin á því að ef tvær umsóknir berast, sem Orkustofnun telur jafngóðar, skuli elsta umsóknin ganga fyrir. Það er í rauninni í hnotskurn hve afleit aðferð þetta er til að skera úr um hverjir fái að rannsaka og/eða nýta auðlindirnar að þarna er einskis jafnræðis gætt. Þarna er stuðst við ákaflega huglægt mat Orkustofnunar og auðvelt að vefengja niðurstöðuna mjög eindregið. Þarna er það ekki uppi á borðinu, þarna er ekkert gagnsæi um það hverjir skuli fá leyfin fyrir utan einhverjar reglur sem settar eru fyrir fram og Orkustofnun metur huglægt hverjir uppfylli skilyrðin og skilmálana. Þetta er afleitt markmið. Þarna á að mínu mati að fara uppboðsleiðina þar sem allir geta boðið í nýtinguna og/eða rannsóknarleyfið uppfylli þeir önnur skilyrði og sá fái. Þar með fær auðlindareigandinn — í mörgum tilfellum þjóðin eða hið opinbera — eðlilegan afrakstur af sinni auðlind, eðlilegt auðlindagjald fyrir nýtinguna á þeirri auðlind sem um er að ræða og sem hefur valdið hvað mestum deilum hvað varðar sjávarútveginn fyrir utan það brask og framsal sem átt hefur sér stað með veiðiheimildirnar eftir að það var heimilað 1989 og hefur orðið til þess að margar byggðir Íslands hafa nánast hrunið og heilu landsvæðin standa eftir í sárum og auðn og hlýtur að vera víti til varnaðar um það hvernig menn gangi fram til að haga málum um nýtingu annarra auðlinda.

Við horfum fram á gjörbreytt umhverfi t.d. á raforkumarkaði sem er að mörgu leyti til góðs og mun samkeppnisvæðing raforkumarkaðarins, ef hægt er að tala um það á svo litlum markaði, vonandi verða til þess að notendur eigi kost á ódýrara rafmagni en áður þó svo að að sjálfsögðu séu þar blikur á lofti. En sérstaklega vegna þessarar samkeppni á raforkumarkaði og vegna þess að nú blasir það nokkurn veginn við að stjórnvöld hafi í hyggju á næstu missirum, nái þeir að kaupa Reykjavíkurborg og Akureyri út úr Landsvirkjun, að háeffa fyrirtækið með það að markmiði að fara með það á markað. Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að búið sé að búa þannig um hnúta hvað varðar nýtingar- og rannsóknarheimildir á auðlindum að þar sé jafnræðis gætt og komið í veg fyrir að pólitísk spilling spili þar inn í eða menn geti vefengt og tortryggt þær niðurstöður sem komist er að vegna þess hve óljóst og loðið er að málum staðið þegar kemur að þessum hlutum.

Ég vil því sérstaklega leggja þetta hér inn við 1. umr. um málið sem að sjálfsögðu eru mörg önnur vafaatriði um og hefur verið komið inn á fjölmargt annað sem þarf að breyta og málið þarf að flestu leyti að taka stakkaskiptum þannig að nást megi um það einhver pólitísk samstaða út úr nefnd og inn í þingið aftur, og hefur einungis verið drepið á örfá atriði sem koma að því hér í dag. Mörgu þarf að breyta og laga til og það er ekki óeðlilegt við 1. umr. enda er um stórt og viðamikið mál að ræða, en sérstaklega þarf að taka á þessu máli í sambandi við veitingu leyfa til rannsókna og nýtingar á auðlindum.