135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um kvótakerfið.

[13:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég held að íslensku þjóðinni hafi ævinlega verið ljóst og viljað túlka það þannig að fiskstofnarnir við Ísland væru sameign íslensku þjóðarinnar. Það hefur ítrekað komið fram í skoðanakönnunum varðandi útfærslu kvótakerfisins. Þjóðin hefur hafnað útfærslunni.

Nú liggur fyrir álit frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um að íslenska kvótakerfið gæti ekki jafnræðis og ríkisstjórninni og löggjafarsamkomunni er falið að taka það mál til gaumgæfilegrar endurskoðunar.

Utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hæstv. ráðherra, sagði nýlega að Íslendingar geti ekki ætlast til að aðrar þjóðir virði mannréttindi fari þeir ekki eftir niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um fiskveiðikerfið og jafnframt að þennan úrskurð yrði að taka mjög alvarlega. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur hins vegar tjáð sig þannig að honum sýnist þessi niðurstaða hafi ekki þau áhrif að sérstaka lagabreytingu þurfi til.

Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvað honum sýnist um þetta mál í ljósi þess að hér er byggt á því að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar og því sé óeðlilegt að mönnum sé ætlað að greiða handhöfum eignarinnar sérstaklega fyrir að sækja fiskimiðin. Hver er afstaða hæstv. forsætisráðherra?