135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:53]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi hér í andsvari yfir vonbrigðum mínum með útlistun hv. þingmanns á því markmiði frumvarpsins að vinna beri gegn kynbundnu ofbeldi. Hv. þingmaður segir eitthvað á þá leið að texti sem útlisti tiltekinn skilning á eðliseiginleikum karlmanna eigi ekki heima í þessari löggjöf og að hann sé ekki tilbúinn til að samþykkja að karlmenn almennt séu ofbeldismenn. Ég er heldur ekki tilbúin til að samþykkja að karlmenn séu almennt ofbeldismenn og það er ekkert í textanum sem gefur það til kynna. Hins vegar er vitað að ofbeldi karla gegn konum er rótgróið samfélagsmein. Um það má lesa fjölda fræðilegra rannsókna, að ofbeldi karla gegn konum er þáttur — (Gripið fram í.) já, sumra karla, það er auðvitað alveg rétt, að ofbeldi sumra karla gegn konum er mjög ríkur þáttur í því að halda konum niðri í samfélaginu. Tilhneiging eða tilraun hv. þingmanns til þess að bera þetta saman við útlendingamál og umræðu um mismunandi þjóðerni er afleit og fráleit að mínu mati því að það eru engar rannsóknir mér vitanlega sem leiða það í ljós að einhver ein þjóð sé ofbeldishneigðari annarri. Hins vegar eru eflaust hundruð rannsókna sem sýna fram á að karlar eru líklegri til þess að beita konur ofbeldi og gera það en að konur beiti karla ofbeldi.

Sem sagt, ég vildi frekar sjá að farið verði í þessari löggjöf og frumvarpi að tillögu frá Mannréttindaskrifstofu Íslands um að kynbundið ofbeldi verði sérstaklega skilgreint í löggjöfinni (Forseti hringir.) og kem til með að berjast fyrir því.