145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í umræðum um heilbrigðiskerfið og sérstaklega heilsugæsluna og að það þurfi að styrkja hana virðast ákveðin öfl í samfélaginu telja helsta vandamál heilsugæslunnar vera rekstrarformið, að um leið og búið væri að breyta rekstrarforminu og setja upp fleiri einkareknar heilsugæslustöðvar mundu heimilislæknar drífa sig heim og koma hingað til að reka stöðvarnar. Ég tel hins vegar að helsta vandamál heilsugæslustöðvanna sé fyrst og fremst fjárskortur. Núna er verið að gera eitthvert kostnaðarmat og búa til þannig kerfi að fjármagn fylgi hverjum sjúklingi. Það á að bæta við þremur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu en hvergi er gert ráð fyrir auknu fjármagni til viðbótar til að reka þær heilsugæslustöðvar eða takast á við aldursskiptingu þjóðarinnar sem veldur því að álag eykst á kerfið í heild. Á næsta ári á sem sagt að bjóða einhverjum að reka þrjár stöðvar, það er ekki útboðsskylt, en það á að bjóða einhverjum að reka þessar stöðvar — en það á ekki að setja aukið fjármagn í kerfið.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér að þetta geti gengið upp. Hvað væri skynsamlegra að gera til að efla heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu?