148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:43]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að samkvæmt þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir aukningu á næstu árum til örorku- og lífeyrisþega. Það liggur líka ljóst fyrir að þegar þessi vinna mun hefjast sem stjórnmálin munu m.a. koma að, þá kann vel að vera að á einhverjum tímapunkti í þeirri vinnu verði niðurstaða sú að skynsamlegt sé að stíga einhver skref í ákveðna átt, en þau verða þá að vera í takti við þá vinnu sem snýr að starfsgetumatinu. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að vinnan geti hafist sem fyrst. Það er það sem ÖBÍ hefur verið að gagnrýna, þ.e. að við höfum ekki getað komist af stað fyrr. Og það er bara vegna þess að við erum enn þá að bíða eftir skipunum í þennan starfshóp til þess að geta hafist handa. Ég hef ítrekað verið að reyna að ýta á eftir því að það geti gengið.

Síðan hvað varðar unga örorkulífeyrisþega þá vil ég segja að þetta er ein stærsta áskorun samfélagsins í dag, þ.e. að við verðum að leita leiða til að aðstoða ungt fólk sem því miður lendir á örorku við það að fara í gegnum endurhæfingu, finna sér úrræði til þess að geta komið aftur sem virkir þátttakendur inn í samfélagið og inn á vinnumarkaðinn. Það er auðvitað mikil áskorun fólgin í því ef staðreyndin er sú að til að mynda á síðasta ári voru fleiri nýir örorkulífeyrisþegar en fæðingar í landinu. Þá er það grafalvarlegt og þá er okkur einhvers staðar að mistakast sem þjóð. Þess vegna er svo mikilvægt að setja aukinn kraft í þá vinnu sem snýr að starfsgetumatinu, vegna þess að starfsgetumatið og uppbyggingin á því, það má kannski segja að nafnið á þessu ætti að vera nýtt endurhæfingarkerfi vegna þess að það er það sem það er.

Þessir ágætu ungu menn sem hv. þingmaður talaði um að væru að detta út af vinnumarkaði, starfsgetumatið og uppbyggingin á því grípur þessa einstaklinga, aðstoðar þá í samstarfi við heilbrigðiskerfið, við sveitarfélögin, við Vinnumálastofnun, við VIRK og fleiri aðila að koma þeim aftur út á vinnumarkaðinn. Ég sé því ekki annað en að ég og hv. þingmaður séum bara á sömu blaðsíðu með það að gríðarlega mikilvægt er að þessi vinna fari af stað sem fyrst.