149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2018 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

342. mál
[22:27]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Ásgerður K. Gylfadóttir) (F):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka er varðar rafrænar undirskriftir og aðrar tengdar rafrænar aðgerðir við EES-samninginn. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2018, frá 9. febrúar 2018, um breytingu XI. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 910/2014 frá 23. júlí 2014 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum og um niðurfellingu á tilskipun 1999/93.

Markmið reglugerðarinnar er að koma á rafrænum samskiptum milli aðildarríkja og tryggja öryggi rafrænna viðskipta innan sambandsins.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar og verða sett ný lög um rafrænar undirskriftir í stað laga nr. 28/2001. Gert er ráð fyrir því að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggi fram slíkt frumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt, en nánari grein er gerð fyrir henni í nefndaráliti utanríkismálanefndar.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Undir nefndarálitið rita Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður, sú sem hér stendur, Ásgerður K. Gylfadóttir framsögumaður, Ari Trausti Guðmundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Logi Einarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Smári McCarthy, Una María Óskarsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, með áðurnefndum hætti.