150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Auðvitað er það eins og þingmaðurinn þekkir að þegar er ágreiningur eins og er þarna um skiptinguna, þá verður það á endanum að vera ákvörðun löggjafans hvernig menn stíga til jarðar og hvort menn fara eftir ýtrustu kröfum eins eða ýtrustu kröfum annars eða reyna að velja einhverja millileið. Þarna er valin millileið. Hins vegar er það mikilvægt sem hv. þingmaður kom inn á, og ég er henni sammála í því, að það hefði verið heppilegra að fara með tólf mánuðina inn í aðallagatextann. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það. En þá hefðum við að mati meiri hlutans ekki verið að gefa endurskoðunarhópnum sama svigrúm og er gefið með því að hafa ákvæði inni til bráðabirgða, þ.e. það eru skýr skilaboð í bráðabirgðaákvæðinu að endurskoðunarhópurinn eigi að segja til um hvað honum finnist um skiptinguna.