151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um stjórnarskrána. Sett var á laggirnar stjórnlagaráð sem kom með nýja stjórnarskrá. Við hefðum líka getað verið að ræða hana almennilega hér inni á þingi, lagt hana bara fyrir. Það hefði verið flott mál. Nú hafa formenn flokkanna verið að ræða stjórnarskrármál á 25 fundum, held ég að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt, og niðurstaðan er sú að forsætisráðherra kemur einn inn með frumvarpið. Af hverju ekki Sjálfstæðismenn? Af hverju ekki Framsókn? Hefði það ekki verið sterkara eða er ósamkomulagið algjört þarna inni? Ég veit það ekki. Ég skil ekki þennan vendipunkt. Ég myndi segja að tillaga um nýja stjórnarskrá frá stjórnlagaráði hafi verið gerð að kröfu stórs hluta þjóðarinnar og því væri auðvitað alveg sjálfsagt og eðlilegt að við ræddum það mál almennilega, gæfum okkur tíma í það. En einhverra hluta vegna er uppi andstaða við það. Það virðist að stærstum hluta vera andstaða við allar breytingar á stjórnarskrá yfir höfuð.

Og þá spyr ég: Hverra hagur er það að hafa þetta óbreytt? Hverjir fá mest út úr því að hafa stjórnarskrána óbreytta? Ég held að við vitum svarið við því. Það eru þeir sem berjast mest gegn öllum breytingum og þar held ég að Sjálfstæðisflokkurinn sé fremstur í flokki. Ég efast um að þeim finnist stjórnarskráin svona rosalega heilög en einhvern veginn finnst þeim hún virka fullkomlega fyrir þá á þessu sviði. Aðrir eru tilbúnir að ræða þetta í víðara samhengi og það er það sem við eigum að gera.