Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[23:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er eitt helsta einkenni hlutafélagaformsins að félagið telst lögaðili sem er aðskildur frá eigendum sínum, hluthöfunum. Við erum með hlutafélag upp á 100 kr., einn hlutur er króna og það eru 100 hluthafar. Ef hluthafi vill setja meiri pening í félagið þá þarf að auka hlutaféð með samþykktum félagsins. Það sem er kjarninn í þessu er: Hverjir stjórna lögaðilanum? Hverjir stjórna hlutafélaginu? Jú, það eru eigendurnir, það eru hluthafarnir sem stjórna, það eru þeir sem eiga þetta. Stjórnendur eiga ekki hlutafélagið. Stærsti vandinn varðandi fyrirtæki og hlutafélögin er svokallaður umboðsvandi, en eigendur gefa stjórnendum umboð til að stjórna fyrirtækinu. Þessi umboðsvandi er vel þekkt fyrirbæri og er eitt helsta vandamálið í öllum hlutafélagalögum. Ef hluthafi vill setja miklu meiri pening í félagið þá getur hann keypt upp restina af hlutabréfunum. Þá á hann félagið 100%, alla hlutina. Þá getur hann farið og sett enn þá meiri pening í það ef hann vill gera það. Það er hans frjálsa val. Varðandi hlutafélagalýðræði þá er það grunnurinn að stjórn hlutafélagsins þar sem æðsta vald hlutafélags er hinn svokallaði hluthafafundur. Það að fara að takmarka rétt hluthafans til að mæta á fund, segja sína skoðun, greiða atkvæði, hafna tillögum og samþykkja tillögur er skerðing á hlutafélagalýðræðinu. Mér finnst ótrúlegt að núna árið 2022 séum við að ganga það langt í þessum lögum að segja að þessi frestur geti verið allt upp í viku til að krefjast þess að hluthafi skrái sig á hluthafafund svo hann geti neytt réttar síns samkvæmt eign sinni. Það finnst mér ganga of langt. (Forseti hringir.) Mér finnst líka ganga of langt að það eigi við um hluthafafund, ekki bara aðalfund eins og á Norðurlöndunum.