154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

skipulagslög.

183. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg):

Frú forseti. Fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar mæli ég fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum.

Meginmarkmið þessa frumvarps er að stuðla að því að byggðar verði hagkvæmar íbúðir. Með því er átt við íbúðir sem stjórnvöld hafa lagt áherslu á og gert ráðstafanir til að byggðar verði til þess að fólk geti eignast eða leigt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Í frumvarpinu er í þessu skyni ákvæði þess efnis að sveitarfélögum verði heimilað við gerð deiliskipulags nýrra íbúðasvæða að tileinka allt að fjórðungi heildarfermetrafjölda íbúðarhúsnæðis íbúðum sem falla undir lög um almennar íbúðir og íbúðum sem uppfylla skilyrði fyrir hlutdeildarlánin og lánum til leiguíbúða samkvæmt lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998. Meiri hlutinn telur frumvarpið vera mikilvægt skref í þeirri vinnu ríkis og stjórnvalda að fjölga íbúðum, stuðla að fjölbreytni í húsnæðiskostum og þar með auka möguleika fólks á að eignast eða leigja húsnæði.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk til sín gesti sem komu sjónarmiðum sínum á framfæri eins og greint er frá í nefndaráliti. Einnig bárust sjö umsagnir um málið og eru þær aðgengilegar á vef Alþingis, eins og alla jafna gildir um umsagnir mála, ásamt minnisblaði innviðaráðuneytisins og umsögnum sem bárust um málið þegar það var til umfjöllunar á 153. löggjafarþingi. Þetta kemur allt saman fram í áliti nefndarinnar.

Rætt var á vettvangi nefndarinnar hvort stíga ætti það skref að skylda sveitarfélög til að ætla fjórðung byggingarmagns til uppbyggingar hagkvæmra íbúða en hvorki nefndin né innviðaráðuneytið leggja það til þar sem það samræmist ekki sjónarmiðum um sjálfstjórn sveitarfélaga og skipulagsvald þeirra. Þá var fjallað um það hvort hlutfallið sem um ræðir, fjórðungurinn, ætti að vera 30% eins og kveður á um í rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða á árinu 2023–2032 en ekki er lagt til að það skref verði tekið þar sem um ólíka þætti sama máls er að ræða og ekki er sýnt að breyting í þessa veru styddi við það meginmarkmið að auka framboð á hagkvæmum íbúðum. Það sjónarmið kom fram að heimildarákvæðið um fjórðung fermetrafjölda til hagkvæmra íbúða kunni að verða til þess að almennt íbúðaverð hækki og það geti einnig haft áhrif á samninga sveitarfélaga við eigendur byggingarlands. Nefndin tekur ekki undir þessi sjónarmið en álítur að rétt sé að láta fara fram árið 2027, þegar þriggja ára reynsla hefur fengist af breytingunni, mat á áhrifum þeirrar heimildar sem felst í frumvarpinu.

Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að kannað verði hvort og hvernig sveitarfélögin nýta heimildina til að ráðstafa fjórðungi byggingarmagns til hagkvæmra íbúa íbúða og skili ráðherra og Alþingi skýrslu um þetta eigi síðar en 1. febrúar 2027.

Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, eftirtaldir hv. þingmenn: Bjarni Jónsson formaður, Njáll Trausti Friðbertsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ingibjörg Isaksen og Vilhjálmur Árnason.