132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[11:40]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þótti og þykir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar vægast sagt athyglisvert í ljósi þess að þar kemur nánast ekkert fram af þeirri umræðu sem fram fór í efnahags- og viðskiptanefnd meðan málið var þar til meðferðar. Hvergi er greint frá því í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að hver einn og einasti lögfræðingur sem fyrir nefndina kom galt varhuga við því að þetta frumvarp færi óbreytt í gegnum þingið. Hv. þingmaður Pétur H. Blöndal gat þess heldur ekki að dregið var fram á afar skýran hátt í umræðum fyrir nefndinni að Kjaradómur og niðurstaða Kjaradóms endurspeglar aðeins þá launaþróun sem verið hefur í landinu undanfarin missiri. Kjaradómur hefur sagt sjálfur að hann hafi horft þar til fyrsta ársfjórðungs 2003.

Þetta er sá veruleiki sem fram kom í nefndinni og dregur einnig fram að það sem hér er kannski fyrst og fremst verið að gera af hálfu meiri hlutans er að reyna að koma í veg fyrir að þessi úrskurður endurspegli þá launaþróun sem verið hefur í landinu og þá gliðnun sem átt hefur sér stað milli þeirra sem meira hafa og milli þeirra sem minna hafa. Þá gliðnun er verið að reyna að fela í því orðagjálfri sem birtist í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér þykir óskaplega miður þegar þetta er gert með þeim hætti því að í tilvikum eins og þessum endurspeglar álitið á engan hátt þá vinnu sem fram fór í nefndinni. Ég tel afar mikilvægt að þegar menn koma inn á hið háa Alþingi og flytja mál sitt, þá að minnsta kosti kynni þeir öðrum hv. þingmönnum hvaða sjónarmið komu fram í nefndinni því ella er til lítils að sitja marga fundi í nefndinni og fara vandlega yfir mál. Það vil ég þó segja hv. formanni til hróss, að hann kallaði fyrir nefndina þá sem um var beðið og umræðan var að mörgu leyti góð og áhugaverð og af þeirri ástæðu er miður að umræðunni skuli ekki gerð einhver skil, eða einhver tilraun gerð til að gera umræðunni skil í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Virðulegi forseti. Ég geri nú grein fyrir áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar og einnig breytingartillögu sem við flytjum við það frumvarp sem liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar um Kjaradóm og kjaranefnd. Ég mun gera grein fyrir því áliti og þeirri tillögu. En áður en ég kem að álitinu er ekki hægt annað en að vekja sérstaka athygli á hvernig ríkisstjórnin brást við þegar úrskurður Kjaradóms lá fyrir. Það er alveg ljóst að viðbrögð hennar voru geysilega fálmkennd og báru þess glöggt merki að forusta hennar er afskaplega veik. Án þess að ég kannski telji mig vita nákvæmlega hvað gerist í herbúðum ríkisstjórnarinnar virðist manni sem brotthvarf fyrrverandi utanríkisráðherra úr ríkisstjórninni hafi skipt þar verulegu máli. Að minnsta kosti voru viðbrögðin mjög fálmkennd og birtust m.a. í afar athyglisverðum bréfaskriftum sem hæstv. forsætisráðherra átti við Kjaradóm um hvort Kjaradómur gæti komist að annarri niðurstöðu á grundvelli sömu laga sem hann áður hafði komist að sinni niðurstöðu og hefur síðan eftir það gert ítarlega grein fyrir að Kjaradómur var aðeins að bregðast við þeirri launaþróun sem átt hefur sér stað í landinu.

Það kom einnig skýrt fram í efnahags- og viðskiptanefnd — það er slæmt að hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson sé ekki hér í salnum — að hinir svokölluðu stofnanasamningar sem voru ákveðnir með lagabreytingum 1996 og tóku síðan gildi fljótlega upp úr árinu 1997 hafa haft geysilega mikil áhrif á þá launaþróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og endurspeglar aðeins að ríkisstjórnin hefur algerlega misst tökin á þessum málum því hún á hátíðarstundum ber sér jafnan á brjóst fyrir aðhald og góða stjórn í efnahagsmálum. Þessi tilraun ríkisstjórnarinnar er til að kasta ryki framan í almenning í því skyni að hylja að það sem raunverulega hefur átt sér stað er vegna aðhaldsleysis og getuleysis ríkisstjórnarinnar til að halda utan um sín mál.

Það er veruleikinn í málinu og kom afar skýrt fram í umræðum í nefndinni. Það er það sem fyrst og fremst er verið að hylja. Þó að minni hlutinn sé eindregið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að fresta framkvæmd úrskurðarins til að reyna að sporna gegn þeirri þróun sem átt hefur sér stað í launamálum, þ.e. þeirri gliðnun sem átt hefur sér stað milli þeirra sem meira hafa og þeirra sem minna hafa, þá er hann ekki tilbúin að taka þátt í því leikriti að reyna að halda því fram að afnám þessa úrskurðar muni tryggja áframhaldandi stöðugleika í landinu eða ná fram þeirri sátt sem við sem í minni hlutanum sitjum viljum ná. En við erum hins vegar tilbúin að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að ná því markmiði.

Eins og ég ræddi áðan endurspeglar sú leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara aðeins þá staðreynd að hún hefur einhvern veginn ekki hugmynd um hvernig leysa megi úr þeirri stöðu sem upp kom í samfélaginu eftir úrskurð Kjaradóms. Ég minntist áðan á hin undarlegu bréfaskrif og yfirlýsingar sem fylgdu í kjölfarið og í framhaldi af því birtist þetta frumvarp sem lagt var fyrir Alþingi, sem ríkisstjórnin hafði nú nokkuð góðan tíma til að undirbúa. En hver einasti lögfræðingur sem fyrir nefndina kom taldi að það stæðist ekki. Hver og einn einasti lögfræðingur sem fyrir nefndina kom til að ræða þann þátt málsins hvort frumvarpið stæðist ákvæði stjórnarskrár, taldi að það stæðist ekki. (Gripið fram í.)

Og aðeins af því hv. þm. Pétur H. Blöndal kallar hér fram í að einhverjir kunni að hafa trú á að þetta standist stjórnarskrá, þá var eitt þeirra atriða sem kom til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd spurningin um hvort lækka mætti laun forseta Íslands. Menn geta haft hvaða skoðun sem er á því hvort núverandi ákvæði stjórnarskrárinnar eigi rétt á sér eða ekki. Það breytir ekki hinu að það stendur þarna. Það stendur mjög skýrum orðum, orðalagið er ekki hægt að misskilja, þ.e. að launakjörum forseta verði ekki breytt á miðju kjörtímabili. Það sem vekur kannski sérstaklega eftirtekt er að á löggjafarþinginu 1999–2000 flutti hv. þm. Pétur H. Blöndal frumvarp til laga um afnám skattfrelsis forseta Íslands sem síðan varð að lögum. Í framsöguræðu með því tiltekna frumvarpi sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Ástæða þess að frumvarpið er lagt fram nú er að þær breytingar sem felast í frumvarpinu verða ekki gerðar á kjörtímabili forseta vegna ákvæðis 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar …“

Þetta sagði hv. þingmaður á löggjafarþinginu 1999–2000 og taldi að ekki væri hægt að gera breytingar á launakjörum forseta á miðju kjörtímabili. Þetta er sami skilningur og menn höfðu uppi árið 1992 þegar bráðabirgðalög voru sett. En þá miðuðust breytingar á launakjörum forseta einmitt við upphaf kjörtímabils. Þá er heimilt að gera breytingar á launakjörum forseta og ekki athugasemdir við það. Það að leggja núna til breytingar á launakjörum forseta, eins og hér er gert ráð fyrir, á sér ekkert fordæmi þrátt fyrir það sem fram kemur í greinargerð ríkisstjórnar í því frumvarpi sem hún hefur lagt fram. Mér þykir því miður ef hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem kvað svo skýrt að orði fyrir nokkrum árum að ekki mætti hreyfa við launakjörum forseta á miðju kjörtímabili vegna ákvæðis stjórnarskrárinnar, hefur snúist svona gersamlega í málinu þrátt fyrir skýlaus orð stjórnarskrárinnar. Ég veit að hv. þingmaður á það til að smeygja sér undan pilsfaldi flokksins og taka sjálfstæða og eigin ákvörðun í málum. Ég vona að hann í þessu tilviki hafi ekki verið beygður til að fylgja niðurstöðu ríkisstjórnarinnar, jafnóvönduð og hún er.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan ætla ég að gera grein fyrir áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem við stöndum að, sá sem hér stendur og hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson og Ögmundur Jónasson.

Úrskurður Kjaradóms frá 19. desember 2005 um hækkun launa æðstu embættismanna ríkisins endurspeglar þá launaþróun sem orðið hefur í landinu. Sú þróun hefur aukið launamuninn milli þeirra sem sterkast og veikast standa á íslenskum vinnumarkaði. Af þessum sökum kallaði úrskurðurinn fram sterk viðbrögð í samfélaginu. Stjórnarandstaðan krafðist þess þegar í stað að Alþingi yrði kallað saman til að fjalla um úrskurðinn áður en hann kæmi til framkvæmda. Við því var ekki orðið og kom úrskurðurinn því til framkvæmda 1. janúar sl. sem gerir málið allt mun erfiðara viðfangs. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar í upphafi voru mjög fálmkennd sem m.a. birtist í undarlegu bréfi forsætisráðherra til Kjaradóms. Minni hlutinn vísar því allri ábyrgð á stöðu málsins og málsmeðferð á hendur ríkisstjórninni og meiri hluta hennar á Alþingi.

Lögfræðingar sem komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd vöruðu allir sem einn eindregið við því að fara þá leið sem ríkisstjórnin hyggst fara. Þeir töldu víst að frumvarpið færi gegn ákvæðum stjórnarskrár um eignarrétt og jafnræði, auk þess sem orðalag 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar heimili ekki að laun forseta séu lækkuð á miðju kjörtímabili. Í ljósi þess mikla vafa sem leikur á því hvort frumvarp ríkisstjórnarinnar standist stjórnarskrá getur minni hlutinn ekki staðið að afgreiðslu þess.

Minni hlutinn telur að bregðast verði við úrskurði Kjaradóms en getur ekki fellt sig við þá leið sem ríkisstjórnin leggur til. Minni hlutinn leggur því fram breytingartillögu í þá veru að úrskurður Kjaradóms frá 19. desember sl. komi ekki til framkvæmda frá 1. febrúar til 1. júní.

Lagt er til að fjármálaráðherra skipi nefnd sem í eigi sæti m.a. fulltrúar allra þingflokka. Ekki er kveðið á um fjölda nefndarmanna að öðru leyti. Nefndin skal endurskoða núgildandi fyrirkomulag á launakjörum þeirra sem taka laun samkvæmt úrskurðum Kjaradóms og kjaranefndar. Nefndin skal leggja fram tillögur í formi frumvarps fyrir 15. mars nk. Kveða skal upp nýjan úrskurð um launakjör þeirra sem tillagan tekur til fyrir 1. júní nk. samkvæmt nýjum lögum. Skal úrskurðurinn gilda frá og með 1. febrúar 2006.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Ég ætla að síðan gera örlitla grein fyrir þeirri breytingartillögu sem við leggjum fram, þ.e. sá sem hér stendur, hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson og Ögmundur Jónasson, auk þess sem Guðjón Arnar Kristjánsson er henni samþykkur. En þar segir:

Þrátt fyrir úrskurð Kjaradóms frá 19. desember 2005 skal hann ekki koma til framkvæmda frá og með 1. febrúar 2006 til 1. júní sama ár. Á þeim tíma er Kjaradómi einnig óheimilt að kveða upp úrskurði um launakjör.

Fjármálaráðherra skal skipa nefnd, m.a. með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi. Hún skal endurskoða fyrirkomulag á launakjörum þeirra sem taka laun samkvæmt úrskurðum Kjaradóms og kjaranefndar. Nefndin skili tillögum í formi lagafrumvarps sem lagt verði fyrir Alþingi eigi síðar en 15. mars 2006. Í tillögunum skal m.a. kveðið á um almennar forsendur sem leggja skal til grundvallar þegar kveðið er á um launakjör þeirra sem lögin taka til.

Úrskurð samkvæmt nýjum lögum skal kveða upp fyrir 1. júní nk. Skal hann gilda frá og með 1. febrúar 2006.

Þetta er sú breytingartillaga sem við leggjum fram. En eins og ég hef áður rakið í máli mínu og nauðsynlegt er að hafa í huga er að tillagan er lögð fram í þeirri stöðu að úrskurður Kjaradóms er þegar kominn til framkvæmda. Tillagan gerir ekki ráð fyrir að þingmenn taki 2,5% launahækkun um næstu mánaðamót heldur einungis að framkvæmd úrskurðarins frá því í desember verði frestað. Þar af leiðandi er ekki gert ráð fyrir að Alþingi ákveði með lögum launakjör alþingismanna. Sú ákvörðun var tekin fyrir nokkrum árum að hafa þann háttinn á að aðrir en alþingismenn tækju þessa ákvörðun. Ég tel mikilvægt, hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á því hvernig því máli eigi að vera fyrir komið, að fram fari ítarleg umræða um hvernig best sé að haga þessum málum áður en Alþingi tekur slíka ákvörðun. Ég veit að mismunandi sjónarmið eru uppi um hvernig þá ákvörðun eigi taka en ég held að mikilvægt sé áður en svona ákvörðun er tekin að fram fari ítarleg umræða en ekki er gert ráð fyrir því í tillögu ríkisstjórnarinnar. Þar er einfaldlega gert ráð fyrir því að þingmenn muni hækka um 2,5% miðað við þá stöðu sem var áður en úrskurður Kjaradóms í desember var kveðinn upp. Í þessu birtist sú yfirlýsing okkar að við erum ekki þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að ákveða þetta með þessum hætti, að minnsta kosti ekki nú um stundir.

Í tillögu okkar er ekki gert ráð fyrir því að úrskurðurinn verði afnuminn heldur að framkvæmd úrskurðarins verði frestað, að ný nefnd verði sett á laggirnar sem skili úrskurði í formi lagafrumvarps sem hægt verði að leggja fyrir Alþingi fyrir 15. mars næstkomandi. Það hefði í för með sér að Alþingi gæti ákveðið nýtt fyrirkomulag um hvernig þessum málum verði skipað og hvaða forsendur eigi að leggja til grundvallar. Í framhaldi af því að Alþingi hafi tekið þessa ákvörðun verði kveðinn upp nýr úrskurður sem taki gildi frá og með 1. febrúar 2006.

Með því að samþykkja nú tillögu um að úrskurðurinn muni gilda frá 1. febrúar 2006 getur enginn haft væntingar um að viðkomandi eigi rétt á tilteknum launum frá og með 1. febrúar vegna þess að það er búið að ákveða það fyrirfram að úrskurðurinn eigi að taka gildi frá og með þessum tíma.

Í annan stað ef einhver væri ósáttur við þessa niðurstöðu þá mundi ekki reyna á það nema menn væru ósáttir við forsendurnar sem lægju til grundvallar nýjum úrskurði eða nýrri aðferðafræði við það að ákveða hvernig launin ættu að vera. Að minni hyggju og fleiri stenst þessi aðferð að öllu leyti stjórnarskrá. Með því að fara þessa leið er ekki verið að afnema réttindi einhliða án þess að menn gefi sér tóm til að fara mjög vandlega yfir hvernig best sé að haga þessum málum. Það er okkar mat að verði sú leið farin sé ekki verið að hafa réttindi af neinum á þessari stundu en á hinn bóginn gefist mönnum tóm til að fara betur yfir málið og vanda mjög hvernig að breytingunum verði staðið og tryggja þannig að við þurfum ekki sífellt að hafa áhyggjur af því að hornsteinn regluverks okkar, stjórnarskráin sjálf, skuli ætíð þurfa að þvælast fyrir lagasetningarvaldinu í þeim skilningi að við við virðumst mjög oft fara út á ystu nöf í þeim efnum og stjórnarskráin fær ekki að njóta vafans. Við getum ekki sætt okkur við það að stjórnarskráin fái ekki að njóta vafans í þessum efnum. Þess vegna leggjum við fram þessa tillögu. Hún nær þeim markmiðum sem ég held að allur þingheimur sé í reynd sammála um en aðferðina tel ég fyllilega standast stjórnarskrá. Þess vegna viljum við fara þessa leið og í reynd viljum við einnig hvetja meiri hlutann á Alþingi til að koma með okkur í þá vegferð að finna skynsamlegan flöt á því hvernig haga eigi þessum málum því það er sameiginlegt markmið okkar og ég held að það væri afar farsælt ef hægt væri að ná sáttum um þá leið sem við leggjum til á hinu háa Alþingi. Ég held að það væri stórmannlegt af meiri hlutanum á hinu háa Alþingi og ríkisstjórninni að fallast á þau sjónarmið sem fram komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og ég hef farið ágætlega yfir í ræðu minni.

En áður en ég lýk máli mínu ætla ég að leyfa mér að lesa upp úr bréfi sem formaður Kjaradóms sendi hæstv. forsætisráðherra þegar hann útskýrði hvers vegna úrskurður Kjaradóms var kveðinn upp og hvaða forsendur dómurinn lagði til grundvallar þeirrar niðurstöðu sem fékkst. En í þeim orðum endurspeglast að nokkru leyti sá veruleiki sem launaþróunin sýnir og við megum ekki hér á hinu háa Alþingi kasta ryki í augu almennings, verkalýðshreyfingarinnar og annarra um að launaþróunin sé einhver allt önnur en hún birtist í öllum vísitölum sem hægt er að skoða. Ég ætla að lesa upp örstuttan kafla úr bréfi formanns Kjaradóms til hæstv. forsætisráðherra sem er ritað á Þorláksmessu ársins 2005 en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Laun sem greidd eru þeim embættismönnum sem sambærilegir geta talist við þá sem Kjaradómur hefur úrskurðað laun hafa af ýmsum ástæðum hækkað meira en þau laun sem Kjaradómur hefur ákvarðað á þessu tímabili. Stafar það einkum af tveimur ástæðum: Annars vegar af því að Kjaradómur hækkaði ekki laun 1. janúar 2004 og hins vegar er það afleiðing af kjarasamningum sem ríkisvaldið hefur gert við starfsmenn sína á tímabilinu. Má þar einkum benda á að þann 26. apríl 2005 staðfesti fjármálaráðherra samkomulag við 24 stéttarfélög innan BHM um kjarasamninga BHM-félaganna sem undirritað var þann 28. febrúar og síðan samþykkt í einstökum félögum í mars og apríl. Í samkomulaginu felst kerfisbreyting þannig að 1. maí 2006 verður tekin upp ný launatafla sem er sameiginleg fyrir þau félög sem eru aðilar að því. Launatöflur þessara félaga hækkuðu mikið en meðalhækkun var á tímabilinu 5–5,5%.

Í framhaldi af þessum kjarasamningum ákvað kjaranefnd þann 28. júní sl. að hækka laun þeirra embættismanna sem undir hana heyra um 4,5% afturvirkt frá 1. febrúar 2005. Afleiðingar þessara samninga sem aftur endurspeglast í ákvörðun kjaranefndar eru þær að verulega munaði orðið á launum þeirra sem tóku laun samkvæmt ákvörðun Kjaradóms annars vegar og viðmiðunarhópanna hins vegar.“

Með öðrum orðum er Kjaradómur með þessari ákvörðun aðeins að endurspegla þá þróun sem átt hefur sér stað í samfélaginu. Minni hlutinn er hins vegar tilbúinn til þess og leggur til að framkvæmd úrskurðarins verði frestað og leitað verði nýrra leiða til þess að koma ríkisstjórninni úr þeim vanda sem hún hefur sjálf komið sér í með því að verða ekki við tilmælum stjórnarandstöðunnar og kalla þing saman áður en úrskurðurinn kom til framkvæmda. Sú staðreynd að þing var ekki kallað saman, að ekki var tekið á þessum málum áður en úrskurðurinn kom til framkvæmda, það er það sem hefur sett okkur í þann vanda sem ég hef hér rakið og hefur gert það að verkum að flestir þeir sem tjá sig eða allir þeir sem hafa tjáð sig um það hvort leið ríkisstjórnarinnar standist stjórnarskrá telja að svo sé ekki.