132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:13]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú veit ég ekki alveg hvernig hv. þingmaður skilgreinir hverjir eru lögfræðingar og hverjir eru ekki lögfræðingar. Er hann segja að Gunnar Björnsson og Baldur Guðlaugsson, sem viðhöfðu aldeilis ekki þessi orð, séu ekki lögfræðingar? Eða hvernig ber að skilja þetta þegar hann segir allir sem einn? Það er ekki hægt að fullyrða neitt með þessum hætti eins og gert er í nefndarálitinu.

Síðan benti ég jafnframt á að lögfræðingar sem voru beðnir um að draga fram dómafordæmi gátu ekki fundið dómafordæmi sem styðja þá fullyrðingu að þetta færi gegn stjórnarskránni.

Varðandi forsetann þá er líka í nefndarálitinu fullyrðing um að stjórnarskráin heimili ekki að laun forseta séu lækkuð á miðju kjörtímabili og látið að því liggja að allir lögfræðingarnir sem einn hafi talið víst að stjórnarskráin heimili ekki að laun forseta séu lækkuð á miðju kjörtímabili. Þetta er bara alrangt. Það var enginn lögfræðingur sem tjáði sig með þessum hætti að hægt sé að fullyrða slíkt, eins og kemur fram í nefndarálitinu. 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands var margoft lesin, en þar segir: „Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.“ Jafnframt er vísað í greinargerð með stjórnarskránni, með umræddri grein stjórnarskrárinnar, þar sem segir:

„En ákvæðið miðar að því að hindra, að fjárhagslegum þvingunarráðum verði beitt gegn forseta eða Alþingi eftir á reyni með þessum hætti að ná sér niðri á forseta. Með fyrirmælunum er einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann í upphafi hafði, en engan veginn tryggt, að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur.“

Ég held að það hafi ekki verið nokkur vafi í huga flestra þingmanna þarna inni að ekki sé hægt að fullyrða með þeim hætti sem minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerir tilraun til.