138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

vaxtabætur.

234. mál
[15:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Í fyrsta lagi er mikilvægt að taka fram hið sjálfsagða auðvitað að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað er algerlega óháð því hvernig sá kostnaður er fjármagnaður.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um ákvæði b-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, um að lán til endurbóta á húsnæði myndi ekki stofn til greiðslu vaxtabóta nema lánið sé tekið hjá Íbúðalánasjóði og hvort þetta sé hagstætt fyrirkomulag. Því er til að svara að með lögum nr. 122/1993 var réttur til vaxtabóta rýmkaður frá því sem áður hafði verið þannig að vaxtagjöld vegna lána sem veitt voru úr húsbréfakerfinu sem þá var til endurbóta á íbúðarhúsnæði mynduðu stofn til vaxtabóta. Helstu rökin fyrir þessari rýmkun voru þau að það væri eðlilegt að framkvæmdir af þessu tagi kæmu til álita við greiðslu vaxtabóta þar sem slíkt gæti stuðlað að betri nýtingu eldra húsnæðis og það væri því þjóðhagslega hagkvæmt að auðvelda fólki að ráðast í slíkar endurbætur sem gerði húsnæðið byggilegt og betra til frambúðar. En rétturinn var strax þarna í byrjun takmarkaður við þau lán sem veitt voru í húsbréfakerfinu, enda voru þau veitt til meiri háttar endurbóta. Þau voru ekki veitt út á venjulegar minni háttar framkvæmdir eða viðhald heldur til þess sem uppfyllti skilyrði um að teljast meiri háttar endurbætur á íbúðarhúsnæði í þessum skilningi. Þetta ákvæði hefur haldist nær óbreytt síðan, samanber b-lið 68. gr. tekjuskattslaga, og reglugerð nr. 1990/2001. Við búum því við fyrirkomulag sem hefur verið við lýði um langt árabil um greiðslu vaxtabóta, það sem sagt að einungis lán myndi stofn til greiðslu vaxtabóta sem séu vegna þessara meiri háttar endurbóta á eigin húsnæði til eigin nota og að lánveitandinn sé Íbúðalánasjóður.

Það er líka rétt að hafa í huga að endurbótalán Íbúðalánasjóðs eru með nokkuð sérstökum hætti. Þau eru eingöngu veitt að undangenginni sérstakri skoðun og mati á kostnaði við endurbæturnar og lánið er ekki afgreitt fyrr en þær endurbætur hafa farið fram, þannig að það er tryggt að sá kostnaður sem bætt er fyrir hafi farið í slíkar raunverulegar endurbætur á húsnæðinu. Ferlið er því nokkuð ítarlegt og eftirlitið með lánveitingunum, sem myndar síðan aftur stofninn til vaxtabóta, er þannig umtalsvert en það er viðráðanlegt í þessu tilviki af því að það er einn aðili sem annast um fjármögnunina. Það er alveg ljóst að ef farið yrði út í það að réttur til vaxtabóta af endurbótalánum yrði víkkaður út þannig að hann næði til annarra stofnana, og ég tala ekki um ef menn færðu út mörkin gagnvart því hvað teljast meiri háttar endurbætur og hvað er reglubundið viðhald, sem ekki er ætlunin að komi þarna inn í, þá þarf að huga mjög vel að því hvernig hægt væri að halda utan um það og hafa með því eftirlit. Það er alveg ljóst að skattyfirvöldum t.d. yrði þá talsvert meiri vandi á höndum en er í núverandi kerfi sem er mjög vel afmarkað af þeim ástæðum sem ég hef farið hér yfir. Þetta eru meginrökin fyrir því og hafa verið frá byrjun að afmarka þennan vaxtabótarétt þegar endurbætur á íbúðarhúsnæði eiga í hlut með þeim hætti sem gert hefur verið.