145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að nálgast þessa umræðu um fjáraukalögin á ögn annan hátt en hefur verið gert. Mig langar að byrja á því að fara í ferilinn þar sem fjármálaráðherra hverrar ríkisstjórnar mælir fyrir fjárlögum sem unnin hafa verið, væntanlega af hvaða fjármálaráðherra sem er, hvar í flokki sem hann stendur, með öðrum ráðherrum og embættismönnum, forstöðumönnum stofnana, og þeim vinnuferlum sem við fylgjum. Hæstv. fjármálaráðherra leggur svo fram fjárlagafrumvarpið til 1. umr. Þá tjá ýmsir þingmenn sig, bæði úr stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu, um það hverju sé ábótavant í fjárlögunum, hverju þurfi hugsanlega að breyta, hverjar áherslur ríkjandi ríkisstjórna séu og hvaða áherslur stjórnarandstaðan eða minni hlutinn á þingi hefði viljað sjá í fjárlögunum. Síðan gengur fjárlagafrumvarpið til 2. umr. eða til fjárlaganefndar sem fer yfir þær forsendur sem fyrir liggja. Nefndin kallar eftir umsögnum, tekur inn gesti og umræðan fer fram.

Oftar en ekki hefur það verið þannig frá því að ég kom hér inn 2007 og fram til dagsins í dag að á milli 1. og 2. umr. hafa fjárlögin tekið verulegum breytingum og það virðist vera svo að hvorki stofnanir, forstöðumenn stofnana, ráðherrar né þingmenn líti á fjárlögin sem inn koma sem eitthvert plagg sem beri að horfa til, vegna þess að milljarðar fara inn í fjárlögin á milli 1. og 2. umr. og menn semja um þetta og hitt. Síðan koma fjárlögin til 2. umr. í þinginu og enn hefur það verið svo á þessu kjörtímabili, sem og á hinum síðustu tveimur, að bætt er inn í á milli 2. og 3. umr. og oftar en ekki vegna þess að upp koma pólitískar vinsældakappræður hér um hver getur gert best fyrir þennan hópinn eða hinn.

Síðan eru fjárlögin afgreidd við 3. umr. sem lög frá Alþingi á nákvæmlega sama hátt og önnur lög; hegningarlögin, lög um heilbrigðisþjónustu, lög um háskóla, lög um söfn og öll önnur lög sem gilda í þessu landi.

Það eru ýmsir sem alla tíð hafa brotið lögin. Brjóti menn hegningarlögin er þeim yfirleitt hegnt fyrir þau brot og sumum finnst jafnvel að sú hegning sé ekki nægjanleg eftir því hver brotin eru og kalla á þyngri refsingar við brotum á hegningarlögum.

Virðulegur forseti. Það dettur engum í hug að ræða á sömu nótum um fjárlögin. Það er jafn sjálfsagt að brjóta gegn fjárlögum sem Alþingi hefur samþykkt eftir 3. umr. og að drekka vatn. Það er enginn einasti ráðherra, hvorki í þessari ríkisstjórn né fyrrverandi ríkisstjórnum, og fáir forstöðumenn stofnana sem virða fjárlögin. Það er þannig og það hefur verið þannig.

Ég ber þá von í brjósti að með frumvarpi um opinber fjárlög verði það ekki þannig. Þetta virðingarleysi sem flestir, ef ekki allir, sýna lögum frá Alþingi sem heita fjárlög er með ólíkindum, það hefur alltaf viðgengist og agaleysi í meðförum fjármuna er með ólíkindum. Þetta er enginn nýr sannleikur en við erum almennt ekki að ræða á þessum nótum þegar við erum hér að taka fyrir og ræða um fjáraukalögin. Þetta eru fjáraukalög. Þetta eru hugsanlega lög sem eiga að koma inn að mínu mati út af tvennu. Ef svo væri að tekjur ríkissjóðs hafi verið vanáætlaðar þá á sú breyting á tekjum sem verður á árinu að koma inn í fjáraukalögin, vegna þess að það er eitthvað sem er væntanlega ófyrirséð, og í fjáraukalögum eigum við að vera að bregðast við náttúruhamförum eða einhverju sem er algjörlega ófyrirséð og hefur lent illþyrmilega á ríkiskassanum. Annað ætti ekki að vera í fjáraukalögum, ekkert annað. Það ættu engin gæluverkefni einstakra ráðherra að sjást í fjáraukalögum. Það ættu engar reddingar vegna vanáætlunar á einhverjum liðum sem fyrirsjáanlegir voru að sjást í fjáraukalögum. Það á ekkert, virðulegur forseti, að sjást í fjáraukalögum nema það tvennt sem ég nefndi, að mínu mati. Menn geta svo verið ósammála því.

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjáraukalögin í 2. umr. og kallað er eftir jafnvel enn frekari breytingum á fjáraukalögum á milli 2. og 3. umr., af því að einhverjir sjá að það er borð fyrir báru og rétt væri að gera þetta eða hitt af því að það er borð fyrir báru. Ef það er borð fyrir báru þá ættu þeir fjármunir að fara í að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði ríkissjóðs til þess að við getum síðan nýtt þá fjármuni sem við það skapast til að gera betur á þeim sviðum sem það kallar mest á. En við erum ekki að ræða það. Við erum nú í 2. umr. fjáraukalaga að velta fyrir okkur hvernig við getum bætt í. Þeir kjarasamningar sem voru gerðir á árinu 2015 voru ekki fyrirsjáanlegir í fjárlögum í desember sem við afgreiddum í desember 2014. Kjarasamningar við lækna og kjarasamningar sem gerðir voru á hinum opinbera markaði eða almenna markaði voru ekki fyrirsjáanlegir. Það veit ég frá fyrri störfum mínum að þegar kjarasamningar eru lausir þá er í fjárhagsáætlun sveitarfélaga að jafnaði ekki gert ráð fyrir neinni upphæð í fjárhagsáætlun hvers árs vegna þess að það hefur verið kallað að sýna vísbendingu um það hversu mikið laun geta hækkað og hvernig sveitarfélög gætu hugsanlega komið að verkefninu. Þetta eru með sönnu ófyrirséðir atburðir á árinu 2015 og rétt að bregðast við þeim í fjáraukalögum.

Sagan er nú ekki alveg öll þrátt fyrir þetta vegna þess að síðan fáum við lokafjárlög. Það er oftar en ekki svo að lokafjárlögin ríma heldur ekki við það sem endanlega var samþykkt í fjáraukalögum. Þá erum við komin með fjárlög sem eru lög. Við erum komin með fjáraukalög sem eru lög. Síðan koma lokafjárlög sem líka eru lög og enn þá breytist myndin.

Það er algerlega ljóst í mínum huga að fjármálastjórn á Íslandi, og er mér slétt sama hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn, svona hefur fjármálastjórn ríkisstjórna verið frá því að án efa elstu menn muna. Þá breytir engu hvort um er að ræða góðæri eða hið gagnstæða. Vinnulagið, viðhorfið er það sama hjá ráðherrum, forstöðumönnum stofnana og þingmönnum. Það er sjálfsagt að virða ekki lög eða fjárlög eða fjárlögin réttara sagt.

Virðulegur forseti. Satt best að segja óttast ég, þrátt fyrir að við ætlum vonandi og munum væntanlega afgreiða fyrir jól lög um opinber fjármál, að á meðan þankagangur þeirra sem ráða og fara með fjármál ríkisins, hvort heldur eru ráðherrar eða forstöðumenn stofnana, þingmenn, breytist ekki til muna muni lögin um opinber fjármál engu skipta.

Þetta er grundvallaratriði í mínum huga sem við sem hér sitjum, þeir sem sitja sem ráðherrar í ríkisstjórn í umboði þingflokka sinna og þeir sem ráðnir eru sem forstöðumenn stofnana víðs vegar um landið þurfa að breyta og verða að breyta. Við getum ekki leyft okkur slíkt vinnulag lengur.

Það er algjörlega ljóst að þær fjölskyldur sem haga sér í fjármálum sínum með þeim hætti að eyða alltaf umfram það sem fjölskyldan aflar lenda fyrr eða síðar á vonarvöl. Fjölskyldur verða gjaldþrota, fjölskyldur missa heimili og allt það sem þær eiga, vegna þess að þankagangurinn þar er sá sami og viðgengst í ríkisstjórnum, hjá forstöðumönnum stofnana og þingmönnum og í fjármálum ríkisins.

En hvorki ráðherrar, forstöðumenn stofnana né þingmenn þurfa nokkurn tímann að bera persónulega ábyrgð á því hvernig við stöndum að meðferð fjárlaga. Þar erum við, þingmenn, ráðherrar og forstöðumenn stofnana, oftar en ekki stikkfrí. En fjölskyldan sem hefur sama viðhorf til fjármála og þessir hópar geldur þess. Er það sanngjarnt? Nei, að sjálfsögðu er það ekki sanngjarnt að þeir sem sýsla með opinbert fé séu sjaldnast ábyrgir gerða sinna, en fjölskyldur og einstaklingar sem sýsla með eigið fé þurfa ætíð að axla ábyrgð.

Ég held, virðulegur forseti, að í umræðu almennt um fjárlög, fjáraukalög, sem vonandi heyra sögunni til nema á bresti ófyrirsjáanlegir atburðir sem enginn fær um ráðið og verður að bregðast við, þurfi að verða hugarfarsbreyting.

Við getum staðið hér og tekið nefndarálit meiri hlutans eða minni hlutans, haft á því grundvallarskoðanir sem eru ólíkar eftir því hvar í flokki við stöndum, en það breytir í mínum huga akkúrat engu vegna þess að grunnhugmyndin er röng. Við getum staðið hér og rætt það að hækka eigi greiðslur úr almannatryggingakerfinu til öryrkja og eldri borgara og það sé borð fyrir báru í fjáraukanum til þess að setja greiðslur afturvirkt inn, við getum rætt það. Og við getum rætt það sem hugsanlega ákveðna breytu í því sem ekki var fyrirséð. En við gerum það ekki einungis af því það er borð fyrir báru.

Virðulegur forseti. Að lokum þá bíðum við þess að hér komi inn breytingartillögur hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta hv. fjárlaganefndar og breytingartillögur minni hluta hv. fjárlaganefndar og við förum væntanlega í 2. umr. í næstu viku. Og þá hefst sami söngurinn um að bæta í hér og þar og við munum aftur, ef fram fer sem horfir, standa hér í nóvember eða desember árið 2016 ræðandi fjáraukalög vegna þess að ráðherrar, forstöðumenn stofnana og þingmenn virða ekki lög frá Alþingi um fjárlög.

Það er nú einu sinni þannig að fái stofnun úthlutað úr ríkissjóði ákveðnum milljörðum til rekstrar stofnunarinnar þá ber að aðlaga þjónustuna, hver svo sem hún er, að þeim fjármunum. Ég þekki enga stofnun, virðulegur forseti, enga, sem ekki segir í hvert sinn sem fjárhagsáætlun sveitarfélaga er gerð eða fjárlög ríkisins liggja fyrir: Ég þarf meira fjármagn. Ég man aldrei í minni tíð sem sveitarstjóri eða bæjarstjóri að það hafi ekki heyrst. Engu að síður þá gengu stofnanirnar og gengu vel. Þennan þankagang þarf að leggja af.

Virðulegur forseti. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig fram vindur á árinu 2016 um fjáraukalögin sem við samþykkjum væntanlega í næstu viku sem og fjárlögin, hverju fram vindur á árinu 2016, hvort við sitjum enn í sömu hjólförunum eða hvort okkur hefur tekist það sem okkur ber að gera: Að fara upp úr þeim hjólförum og virða þau lög sem Alþingi Íslendinga setur um fjárlög og Fjársýslu ríkisins.