154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

aðgerðir Íslendinga og annarra þjóða vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs.

[15:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi öryggisráðið. Ef við tölum um þetta á almennum nótum verður að meta hvert tilvik fyrir sig og svona var efnt til sáttmálans um þessa stofnun þannig að maður verður á sama tíma að bera virðingu fyrir því að þetta eru leikreglurnar. Það er of langt mál að fara hér út í ástæður fyrir því hvernig atkvæði voru greidd en við hvöttum til að niðurstaðan yrði önnur. Þar sem er m.a. hérna undir er hvernig menn horfa á líkurnar á því að gíslum verði sleppt.

Ég ætla aðeins að koma inn á þetta með aðgerðir annarra ríkja sem eru þá til þvingunar. Við vitum til þess að Bólivía og Belís hafa slitið stjórnmálasambandi við Ísrael og átta ríki kallað sendiherra eða diplómata heim, en ekkert þessara ríkja hefur hins vegar, svo að það dæmi sé nefnt, slitið stjórnmálasambandi við Rússland. (Forseti hringir.) En ég ætla bara að segja það sem mína skoðun almennt að ég sé ekki í fyrsta lagi að það þjóni neinum tilgangi fyrir okkur að fara í einhliða viðskiptaþvinganir (Forseti hringir.) og almennt höfum við ekki viljað fara þá leið að slíta stjórnmálasambandi. (Forseti hringir.) Við gerðum það einu sinni í tilviki Breta, við höfum ekki gert það gagnvart Rússum og það getur skaðað diplómatíska möguleika okkar að gera slíkt.