154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

stuðningur við mál um græna orkuframleiðslu.

[15:54]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Það má alveg vel slá á létta strengi í þessari umræðu eins og alltaf en mig langar samt að koma þessu aftur á rétta braut. Það að fyrrverandi ráðherra í þessari ríkisstjórn, einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að orkumálum og orkunýtingu og öðru, fari fram í fjölmiðlum til þess að segja að ríkisstjórninni sé ekki treystandi fyrir því sem hann kallar ógn við þjóðaröryggi, ógn við öryggi almennings — við tökum við því auðvitað ekkert af einhverri léttúð. Hann er að benda á þennan möguleika til þess að rjúfa þá kyrrstöðu sem hér hefur verið, að þá geti þurft að mynda nýjan meiri hluta um það í þinginu. Það er það sem þessir tveir þingflokkar eru að lýsa yfir stuðningi með. Við eigum ekki að taka því af einhverri léttúð þegar við erum í þeirri stöðu að við erum að brenna olíu vegna þess að það skortir rafmagn fyrir verksmiðjur víða um landið. Við eigum heldur ekki að taka því af léttúð þegar það getur komið upp sú staða að það þurfi að skerða orku með einhverjum hætti til heimila.